Vel undirbúin fyrir hátíðina

Mikill hiti er nú í Vestmannaeyjum og njóta þessir þjóðhátíðargestir …
Mikill hiti er nú í Vestmannaeyjum og njóta þessir þjóðhátíðargestir veðurblíðunnar til fullnustu. mbl.is/Sigurgeir

Mikill mannfjöldi er nú samankominn í Eyjum enda sjá menn fram á að metaðsókn verði að þjóðhátíðinni. Öll tjaldstæði í dalnum eru orðin full og eru menn byrjaðir að tjalda í kringum dalinn. Talið er að um fimm þúsund manns séu nú á svæðinu. Lögreglan segist vera klár í slaginn.

Lögreglan í Vestmannaeyjum segist aldrei hafa séð eins marga í eyjunni á fimmtudegi fyrir verslunarmannahelgi og var í gær. Mikil blíða er enda í Eyjum og spáin fyrir helgina afar góð. Talsverður erill var hjá henni í nótt og nokkuð um pústra og ölvunarlæti. Þá var ein líkamsárás kærð.

Lögreglan segir að hún sé vel undirbúin fyrir helgina. Reynslumikið viðbótarlið sé komið, þar á meðal sérsveitarmenn og annar fíkniefnahundur en einn hundur er staðsettur í eyjunni að jafnaði. Gott eftirlit sé á flugvellinum, í Þorlákshöfn og við höfnina í Eyjum.

Teymi frá heilsugæslunni og sálgæslulið frá bænum eru á vakt á svæðinu og eru þar með aðstöðu. Þá séu þau ávallt með opinn símann. Einnig eru á svæðinu sérstakir gæslumenn á vegum hátíðarhaldara. Í þeim hópi eru meðal annars sjúkraflutningamenn og björgunarfélagsmenn. Áætlar lögreglan að á álagstímum verði um tvö hundruð manns á svæðinu sem sinni eftirliti og aðstoði gesti ef þörf er á.

Á Suðurlandi voru tveir teknir fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum í dag og voru þeir báðir á leið til Eyja. Þá var einn tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert