„Undirliggjandi tónn skýrslunnar svartsýnn“

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir undirliggjandi tón skýrslu Hagfræðistofnunar vera svartsýnan. Stofnunin geri rækilega grein fyrir því að forsendur Seðlabanka fyrir Icesave séu algerlega óraunhæfar og það sama eigi við um ýmsar forsendur fjármálaráðuneytisins.

„Stofnunin bendir á að afgangur á viðskiptum við útlönd þarf að vera gríðarlegur svo við stöndum undir þessu og hlutfall skuldanna af þjóðarframleiðslu þarf að vera mjög hátt,“ segir Þór. Í skýrslunni komi líka fram að fólksflutningar frá landinu sé einna hættulegastur. Hann hafi bein áhrif á hagvaxtarmöguleika og skattstofn ríkisins. „Fyrstu fimm mánuði ársins fluttu tíu fjölskyldur úr landi hvern virkan dag og það bendir til þess að stórfelldir fólksflutningar séu þegar byrjaðir. Venjulega hefjast þeir ekki fyrr en 1-2 árum eftir að botni kreppu er náð,“ segir Þór.

Hann segir niðurstöður skýrslunnar styrkja það álit sitt að þessum skuldbindingum  sé ekki bætandi ofan á skuldirnar sem við höfum fyrir. Þær hafi þegar verið fyrir ofan öll eðlileg skuldaþolsmörk. „Sumir segja að ef við samþykkjum ekki samninginn lokist allir fjármálamarkaðir en getur ekki líka verið að þeir loki ef við erum ekki borgunarmenn fyrir því sem lánað er? Maður lánar ekki þeim manni peninga sem er skuldugur upp fyrir haus,“ segir Þór.

„Það þarf að setja fyrirvara við þennan Icesavesamning, um að greiðslur verði aldrei hærri en ákveðið hlutfall af þjóðarframleiðslu, svo lífskjör hér rýrni ekki um of. Hér er verið að stofna til ríkisábyrgðar sem ekki er búið að reikna að fullu, það er ekki einu sinni til greiðsluáætlun af hálfu ríkisins og þetta er algerlega óásættanlegt," segir Þór að lokum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka