Vegur um Djúpafjörð þarf ekki í umhverfismat

Djúpifjörður og Hallsteinsnes
Djúpifjörður og Hallsteinsnes Mynd vegur.is

Umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar þess efnis að vegalagning um Djúpafjörð austanverðan, frá væntanlegum Vestfjarðarvegi á Hallsteinsnesi að núverandi Vestfjarðarvegi undir Mýrlendisfjalli í Reykhólahreppi, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun úrskurðaði 27. nóvember 2008 að framkvæmd vegna vegalagningar í austanverðum Djúpafirði væri ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Eigandi jarðarinnar Hallsteinsness kærði úrskurð Skipulagsstofnunar og hélt því fram að fyrirhugaður vegur komi til með að liggja yfir ósnortið land á einkaeignarlandinu Hallsteinsnesi utanverðu, sem að meirihluta sé þakið skógi og kjarri. Muni vegagerðin raska ásýnd landsins sem sjáist langt að. Auk þess taldi kærandi að gögn skorti um jarðfræði og lífríki svæðisins sem vegurinn á að liggja um.

Umhverfisráðuneytið féllst á rök Skipulagsstofnunar og taldi vegalagninguna ekki líklega til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þá þóttu hvorki rök kæranda né málsgögn að öðru leyti veita tilefni til að bera brigður á forsendur Skipulagsstofnunar. Ennfremur þóttu fyrirliggjandi gögn og upplýsingar vegna málsins ekki heldur heldur veita vísbendingu um að hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum um framkvæmdasvæðið í ljósi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun um SKipulagsstofnunar um að lagning vegar um Djúpafjörð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum var því staðfest.

Úrskurður umhverfisráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert