Flensan orðin faraldur

Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir. mbl.is/Ásdís

Svínaflensan sem nú gengur yfir landið er komin á það stig að geta kallast faraldur, að mati Haraldar Briem sóttvarnalæknis. Hann segir að á þessu stigi séu þó ekki uppi neinar bollaleggingar um að bregðast við með samkomubanni, ferðatakmörkunum, lokun skóla eða öðrum sambærilegum ráðstöfunum.

Fólki sem greinist með flensuna sé þó ráðlagt að þvo sér vel um hendur, hósta ekki framan í aðra og halda kyrru fyrir heima í viku frá upphafi einkenna.

Í gær var staðfest að 101 Íslendingur hefði greinst með svínaflensu, flestir á aldrinum fimmtán ára til þrítugs. Gera má þó ráð fyrir að mun fleiri hafi smitast, að mati Haraldar, sem nefnir þar 2.000 manns.

Hann segir alþekkt að þegar inflúensupestir ganga yfir landið, gjarnan um miðjan vetur, veikist oft 5 til 10% þjóðarinnar. Í heims-faraldri inflúensu eins og nú, svínaflensunni, megi hins vegar gera ráð fyrir að 30 til 50% landsmanna taki sóttina enda sé smithraði mikill og erfitt að koma vörum við þegar mótefni séu ekki tiltæk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert