Ekki ástæða til samkomubanns

Flensan er enn sem komið er væg hér á landi.
Flensan er enn sem komið er væg hér á landi. mbl.is/Sverrir

Alls hafa greinst 118 tilfelli með staðfesta sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1)v veiru á Íslandi frá því í maí. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir inflúensuna enn sem komið er vera væga og að ekki sé þörf á samkomubanni eða að loka skólum.

Samkvæmt sóttvarnalækni verða skólarnir að meta það hvort þeir geta starfað ef flensan stingur sér niður meðal starfsfólks.  

„Það má búast við því að svona tilfelli komi upp á svona stöðum eins og í fótboltaliðinu í Grindavík og á leikskólum," sagði Haraldur í samtali við mbl.is.

Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að fjórðungur starfsfólks leikskólans Aðalþings í Kópavogi hefði verið frá vinnu í síðustu viku og að grunur léki á að svínaflensa hefði stungið sér niður á meðal þeirra.

Haraldur hvetur fólk til að halda sig heimavið í sjö daga frá því að einkennin gera vart við sig og þannig reyna að forðast að smita aðra.

Af þeim tilfellum sem staðfest hafa verið eru 66 karlar og 52 konur. Ekki er vitað um alvarleg veikindi af völdum inflúensu A(H1N1)v veirunnar hérlendis.

Á vefsíðunni influensa.is er að finna hagnýtar upplýsingar um flensuna og er sérstakur flipi ætlaður skólum, þar er svarað algengum spurningum um hvernig bregðast eigi við flensunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert