„Viljum síður en svo flæma Aalborg úr landi“

Sementsverksmiðjan Akranesi
Sementsverksmiðjan Akranesi

„Sementsverksmiðjan vill síður en svo flæma Aalborg Portland úr landi, einungis að fyrirtækið hætti undirboðum,“ segir Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Gunnar segir upplýsingar sem fyrirtækið birti í gær um verðlagningu á sementi ekki heimatilbúnar eins og framkvæmdastjóri Aalborg haldi fram heldur opinberar upplýsingar.

Sementsverksmiðjan á Akranesi og Aalborg Portland, sem flytur inn danskt sement, stríða nú á markaði og ganga skeyti á milli. Framkvæmdastjóri Aalborg Portland sagði fyrr í dag að ásakanir um meint undirboð Aalborg portland væru dæmalausar og úrslitatilraun til þess að flæma Aalborg Portland frá íslenskum markaði. Þá hefði Sementsverksmiðjan birt marklausa heimatilbúna töflu um samanburð á verðlagningu á sementi til  Íslands  annars vegar og hins vegar  af lager í Danmörku. Það væri sitthvað dreifing og smásala. Þar væri verið að bera saman verð til stórnotenda annars vegar og listaverð til smærri notenda.

Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar vill af þessu tilefni taka fram að taflan, sem vitnað er í og sögð er heimatilbúin stendur fyrir sínu.

„Annars vegar er um að ræða markaðsupplýsingar um stórnotendur á danska markaðnum sem samkeppnisaðilar hafa aðgang að og hins vegar upplýsingar frá Hagstofu Íslands. Þessar upplýsingar eru því ekki heimatilbúnar. Einnig vil ég ítreka að upplýsingarnar sem Sementsverksmiðjan birti í bréfi til Verslunarráðs hafa ekkert með smásölu að gera eins og framkvæmdastjóri Aalborg Portland talar um. Það kemur skýrt fram í bréfi Sementsverksmiðjunnar til Verslunarráðs að hér er um að ræða stórnotendur. Sementsverksmiðjan vill síður en svo flæma Aalborg Portland úr landi, einungis að fyrirtækið hætti undirboðum,“ segir í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert