Hópur fólks hefur tilkynnt framboð í stjórn Borgarahreyfingarinnar á landsfundi flokksins, sem haldinn verður 12. september. Segir í yfirlýsingu hópsins að þinghópur hreyfingarinnar hafi verið hugsaður sem brú frá grasrótinni inn á Alþingi en þess í stað hafi hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.
Um er að ræða Ásthildi Jónsdóttur, Bjarka Hilmarsson, Björgu Sigurðardóttur, Guðmund Andra
Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiðu B. Heiðarsdóttur,
Ingifríði Rögnu Skúladóttur, Jón Kr. Arnarson, Lilju Skaftadóttur Sigurð Hr.
Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð. Segist fólkið koma fram sem hópur en bjóði sig engu að síður hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.
Valgeir, sem er varaþingmaður flokksins, segir á bloggsíðu sinni, að horfast verði í augu við það, að Borgarahreyfingin sé í eðli sínu ekkert annað en stjórnmálaflokkur. Sem slík verði Borgarahreyfingin að vera lýðræðisleg á sama hátt og aðrir stjórnmálaflokkar og þá sé ekki nema eðlilegt að upp komi sú staða að einhverjir vilji taka málin í sínar hendur og koma hreyfingunni aftur á þann stað sem hún var fyrir kosningar þó ekki væri nema til að ná aftur trúverðugleika og senda félögum sínum og kjósendum sínum skilaboð að Borgarahreyfingin sé lifandi stjórnmálaafl sem ætli sér að breyta samfélaginu í átt til betra lýðræðis, réttlætis, bættra stjórnarhátta og gagnsæis og heiðarleika í íslenskri stjórnsýslu og alls staðar á Íslandi.