„Sérkennileg aðferðafræði“

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Nýtt fiskveiðiár hófst þann 1. september sl. Aflaheimildir í lykiltegundum voru skornar niður frá síðasta fiskveiðiári. Mestur er niðurskurðurinn í ýsu, úr 93.000 tonnum í 63.000.

„Það skýtur óneitanlega skökku við í upphafi nýs fiskveiðiárs, að á sama tíma og aflamark og krókaaflamark í ýsu er skert um 33,3% á milli ára er línuívilnun í ýsu aukin um 31%. Nú eru 2100 tonn í línuívilnunarpottinum en voru 1600 á síðasta fiskveiðiári. Þetta er sérkennileg aðferðafræði en í anda þeirra mismununar sem viðgengst í fiskveiðistjórninni.  Það er ekki sama Jón eða séra Jón, þar sem sumir þurfa að kaupa veiðiheimildir en aðrir ekki,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Í upphafi ný kvótaárs er leyfilegur þorskafli 150 þúsund tonn, minnkar úr 160 þúsund tonnum frá síðasta fiskveiðiári. Þá má veiða 50 þúsund tonn af ufsa á þessu fiskveiðiári sem er 23,4% minna en á því síðasta þegar veiða mátti 65 þúsund tonn. Heildarafli í grálúðu var skorinn niður um 20% á þessu fiskveiðiári, úr 15 þúsund í 12 þúsund tonn. Ekki hefur verið gefið út aflamark í íslenskri síld eftir að sýking gerði stofninum alvarlega skráveifu í fyrra.

„Ég tel að ekki hafi verið rétt að minnka aflamarkið í þorski. Staðan er orðin sú að það er mjög erfitt að láta veiðar ganga upp með svona lítinn þorskkvóta,  þar sem skipin eru á eilífum flótta undan þorskinum. Þá er það sláandi hversu stór hluti aflans í þorski, ýsu, ufsa og steinbít fer í alls kyns sértækar ráðstafanir framhjá afla- og krókaaflamarkinu. Það er nauðsynlegt að snúa af þessari braut,“ segir Friðrik J. Arngrímsson.

Vefur LÍÚ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert