Áréttar auglýsingaskyldu stjórnvalda

Umboðsmaður Alþingis áréttar í nýlegu áliti sínu auglýsingaskyldu stjórnvalda þegar ráðið er í störf hjá hinu opinbera. Tilefnið er tímabundin ráðning í starf upplýsingafulltrúa Landspítalans án undangenginnar auglýsingar.

Umboðsmaður Alþingis ritaði forstjóra Landspítalans tvö bréf í júní og óskaði eftir nánari upplýsingum um fyrirhugaða ráðningu Einars Karls Haraldssonar til Landspítalans. Samkvæmt frétt Landspítalans var Einar Karl ráðinn til sex mánaða frá og með 1. september 2009 til þess að móta nýtt verklag á sviði almannatengsla. Tilefni bréfa umboðsmanns var frétt þar sem greint var frá því að Einar karl hefði verið ráðinn til spítalans til að gegna framangreindu starfi. Í fréttinni kom fram að starfið hefði ekki verið auglýst þar sem að ekki hefði verið um að ræða nýja stöðu. Í bréfi, dags. 2. júní 2009, óskaði umboðsmaður m.a. eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli hefði verið ráðið í umrætt starf án auglýsingar.

Með vísan til skýringa Landspítalans taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að hafast frekar að vegna málsins. Í því sambandi leit umboðsmaður einnig til þess að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu forsætisráðuneytisins hafði Einar Karl verið ráðinn í starf upplýsingafulltrúa í ráðuneytinu til sex mánaða frá og með 1. september 2009. Af starfi Einars Karls fyrir Landspítala varð því aldrei.

Skylt að auglýsa önnur störf en embætti opinberlega

Umboðsmaður tilkynnti forstjóra Landspítalans um lok frumkvæðisathugunar sinnar með bréfi, dags. 4. september 2009. Í bréfinu taldi umboðsmaður þó rétt að árétta við forstjóra spítalans að samkvæmt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skulu önnur störf en embætti auglýst opinberlega.

Þó eru undantekningar frá auglýsingaskyldu ef um er að ræða störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, barnburðarleyfis, námsleyfis, leyfis til að starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt og loks ef um er að ræða störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði.

Umboðsmaður bendir forstjóra Landspítala á að ef ætlunin er að ráða starfsmann í laust starf í þjónustu ríkisins er skylt að gera það að undangenginni auglýsingu. Skipti þá ekki máli þótt stjórnvöld telji hagfelldara að ráða einstakling í laust starf án auglýsingar.

Fréttir séu ákveðnar og skýrar

Loks bendir umboðsmaður forstjóra Landspítala á að gæta þess að frásagnir og fréttir sem spítalinn sendir frá sér séu skýrar og glöggar og í þeim greint frá hvert er hið raunverulega efni þeirrar ákvörðunar sem sagt er frá.

Í frásögn Landspítala kom ekki fram að Einar Karl hefði verið ráðinn í forföllum annars starfsmanns og því hefði verið heimilt að ráða í starfið án undangenginnar auglýsingar.

Umboðsmaður getur þess í áliti sínu að það sé talin óskráð grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr. Þegar löggjöf setji heimildum stjórnvalda sérstakar skorður um það hvernig ákvörðun er hagað þurfi að gæta þess að fréttir sem stjórnvöld birta sjálf um málið veiti nauðsynlegar upplýsingar þannig að ráða megi af fréttinni að þeirra hafi verið gætt.

„Ég kem því þeirri ábendingu á framfæri við Landspítalann að betur verði hugað að þessum atriðum í fréttum sem spítalinn sendir frá sér þegar einstaklingar eru ráðnir tímabundið í forföllum annarra starfsmanna,“ segir í áliti umboðsmanns Alþingis.

Úrskurður umboðsmanns í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert