„Skipulögð skemmdarverk"

Garðar Þorbjörnsson, eigandi Urðar og grjóts ehf,
Garðar Þorbjörnsson, eigandi Urðar og grjóts ehf, mbl.is/Rax

Garðar Þorbjörnsson, eigandi Urðar og grjóts ehf, segir aðkomuna að vinnusvæði Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýri hafa verið mjög slæma í morgun og að lítið sem ekkert verði hægt að vinna þar í dag. 

Mikil skemmdarverk voru unnin á vinnuvélum á svæðinu í nótt og segir Garðar ómögulegt að einn maður hafi getað verið þar að verki, svo miklar séu skemmdirnar.

Þá segir hann að notaðar hafi veri mjög öflugar klippur, sem ekki liggi á glámbekk, við skemmdarverkin og greinilega hafi verið gengið mjög skipulega til verks. „Það voru ekki brotnar neinar rúður en öll loftnet voru brotin, “ segir hann.

„Þá var klippt á allar slöngur og víra til dæmis olíuslöngur, rafmagnsleiðslur, leiðslur í vökva og smurkerfi. Tankar voru einnig fylltir af sandi og vatni.” 

Garðar segir mesta tjónið hjá sér þó sennilega hafa verið unnið á tölvu sem notuð sé við mælingar til að afrétta götur fyrir malbikun. Tjónið á tölvunni einni nemi milljónum. 

Skemmdir voru unnar á fimm vinnuvélum Urðar og grjóts og segir Garðar ólíklegt að tvær þeirra komist í gagnið fyrir helgi. Hann viti einnig til þess að skemmdir hafi verið unnar á vinnuvélum Ístaks og Loftorku. 

Starfsmenn Urðar og grjóts hafa unnið á svæðinu undanfarnar vikur og til hafði staðið að þeir hæfu vinnu við malbikun einnar götu í dag. „Ég tel alveg útilokað að það muni gerast í dag,” sagði Garðar er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í morgun.

„Við verðum a.m.k. fram að hádegi að átta okkur á þessu öllu saman og bíða eftir því að rannsókn lögreglu ljúki. Þá er alveg eftir að koma vélunum í gang."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert