Árlega í mars endurskoðar Hagstofa Íslands þann grunn sem vísitala neysluverðs byggist á en hann á að endurspegla meðalneyslu landans hverju sinni. Ljóst er að neysla Íslendinga hefur dregist hratt saman á undanförnum mánuðum sem vekur spurningar um hvort vísitölugrunnur, sem skoðaður er árlega, gefi nægjanlega rétta mynd af neyslunni og þar af leiðandi verðlagsþróun í landinu.
Spurningin á ekki síst rétt á sér vegna þeirrar staðreyndar að stærstur hluti lána í landinu er verðtryggður og hækkar því í takt við verðlagsþróunina. Fleira hangir þó á spýtunni, t.a.m. aðgerðir og stýrivextir Seðlabanka og sömuleiðis horfir verkalýðshreyfingin mjög til verðbólgunnar í sinni samningagerð.
Að sögn Guðrúnar Ragnheiðar Jónsdóttur, deildarstjóra vísitöludeildar Hagstofunnar, er grunnur vísitölunnar ákveðinn að stærstum hluta út frá útgjaldarannsókn, þar sem úrtak 1.200 heimila á ári gefur Hagstofunni nákvæmar upplýsingar um neyslu sína. Við endurskoðun vísitölugrunnsins eru niðurstöður þriggja ára lagðar til grundvallar. Þar fyrir utan eru aðrar heimildir nýttar, s.s. upplýsingar frá söluaðilum, kaupsamningar fasteigna og bifreiða, virðisaukaskattsskýrslur og fleira.
Það tekur þó tíma fyrir þessi gögn að berast. Þannig var við endurreikninga í mars sl. stuðst við útgjaldarannsókn áranna 2005-2007, þ.e. þegar þenslan var í hámarki. Þá lágu einnig fyrir sölutölur verslana og innflytjenda frá árinu 2008 en upplýsingar um bílasölu náðu til febrúar í ár.
„Ef öll neyslan hefði dregist saman jafnt hefði það ekki haft nein áhrif á vísitölugrunninn því þá væri hlutfallsskiptingin innbyrðis eins,“ útskýrir Guðrún. „Núna breyttist grunnurinn hins vegar t.a.m. vegna þess að bílasala og ferðalög til útlanda drógust saman. Við það hækkaði hlutfall matarinnkaupa í vísitölunni úr 12 í 14%.“
Þar sem matur er meðal þeirra vöruflokka sem hafa hækkað ört í verði að undanförnu vegna gengisbreytinga skilar sú verðhækkun sér því nú í ríkari mæli út í vísitöluna en áður, þar sem matur hefur meira vægi nú í grunninum.
Guðrún telur ekki raunhæft að endurskoða vísitölugrunninn oftar en nú er gert. „Við yrðum alltaf að leggja a.m.k. tólf mánaða neyslu til grundvallar vísitölunni því neyslan er svo sveiflukennd og karfan á að endurspegla meðal ársútgjöld heimilisins. Eins hefur það áhrif hvenær gögn liggja fyrir því við þurfum að hafa óyggjandi upplýsingar um breytingar á neyslunni til að hreyfa við vísitölugrunninum. Það dugar ekki að hafa sögusagnir um að hlutirnir séu að breytast.“
Undir þetta tekur Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ. „Hagstofan hefur reynt að bregðast við þessum skyndilegu breytingum án þess að fara út í fálmkennda niðurskrift á vísitölunni, sem væri eins og að reyna að tryggja okkur gott sumar með því að bæta fjórum gráðum við hitamælinn. Vísitalan er einfaldlega mælitæki en hvernig við nýtum það mælitæki er annað mál.“