Sáttur við þróun mála

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra segir að Íslendingar hafi verið í góðu sambandi við Breta og Hollendinga vegna Icesave-málsins. Embættismenn hafi farið vel yfir málið og í gær hafi sendiherrum ríkjanna verið gerð grein fyrir viðbrögðum íslenskra ráðamanna við hugmyndum Breta og Hollendinga um lausn málsins. „Við erum á því stigi núna,“ segir hann.

Aðeins hugmyndir

Hugmyndirnar voru kynntar fyrir þingnefndum auk þess sem þingflokkarnir fjölluðu um þær, en stjórnarandstaðan brást hart við þeim. Til dæmis ályktuðu þingflokkar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að höfnuðu Bretar og Hollendingar fyrirvörunum tæki ríkisábyrgð ekki gildi.

Steingrímur segir það með eindæmum hvernig viðbrögð stjórnarandstöðunnar hafi verið vegna þess að fyrir liggi eingöngu hugmyndir Breta og Hollendinga sem þeir hafi spilað út sem mögulegum viðbrögðum af sinni hálfu við afgreiðslu Alþingis. Þeir hafi viljað kynna íslenskum stjórnvöldum þessar hugmyndir til þess að fá tilfinningu fyrir því hvort þar væri að finna mögulegan efnivið í lausn. Þeir hafi unnið þetta afar varfærnislega og vildu helst fá viðbrögð áður en málið kæmist á formlegt stig.

„Það er stundum talað um svona ekki-pappíra sem hverfa ef þeir reynast ekki þjóna sínum tilgangi og í raun og veru eru hugmyndir þeirra þess eðlis,“ segir Steingrímur.

Hann segir að ekki hafi komið fram efnislega rétt mynd af hugmyndunum auk þess sem viðbrögðin væru ótímabær miðað við stöðu málsins.

Steingrímur segir að í umræðunni hafi eitt aðalmálið gleymst, það að finna á málinu lausn og koma því í höfn. „Það er eins og það gleymist í hita leiksins að þetta snýst auðvitað allt um það,“ segir hann. Spurður hvort Íslendingar séu að brenna inni í málinu minnir Steingrímur á að komið sé fram yfir miðjan september. „Okkur er það brýn nauðsyn að koma hlutunum hér áfram og það er margt þessu tengt.“

Um 800 milljarðar gjaldfalla 23. október

Um 1,3 milljarðar evra og um 2,3 milljarðar punda eða um 800 milljarðar króna falla á Tryggingasjóð innistæðueigenda 23. október næstkomandi. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra vonar að samkomulag náist við Breta og Hollendinga fyrir þann tíma.Gylfi Magnússon bendir á að tryggingasjóðir innistæðueigenda í Bretlandi og Hollandi hafi greitt innistæðueigendum og því sé verið að ræða við sjóðina frekar en við innistæðueigendur.„Við miðum við að samningar náist við Breta og Hollendinga,“ segir viðskiptaráðherra. „Það er kannski ekki rétt á þessu stigi að vera með einhverjar vangaveltur eða getgátur um hvað gerist ef það gengur ekki eftir.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert