Kröfuhafar vonsviknir

Kröfuhafar SPRON eru vonsviknir vegna frávísunar Héraðsdóms.
Kröfuhafar SPRON eru vonsviknir vegna frávísunar Héraðsdóms. Árni Sæberg

Kröfuhafar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna frávísunar Héraðsdóms Reykjavíkur á stefnu þeirra á hendur íslenska ríkinu, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og SPRON vegna yfirtöku ríkisins á rekstri SPRON. Kröfuhafarnir segja frávísunina gríðarleg vonbrigði og fylli erlenda kröfuhafa vonleysi vegna ósanngjarnar meðferðar af hálfu íslenskra yfirvalda. 

Kröfum 25 alþjóðlegra banka sem kröfðust viðurkenningar á bótaskyldu vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málskostnaðurinn, samtals 2 milljónir króna, fellur á stefnendur í málinu, sem aðallega eru þýskir bankar.

Að mati héraðsdóms voru kröfur bankanna ekki nægilega vel reifaðar og því var málinu vísað frá dómi. Segir meðal annars í niðurstöðu dómsins, að þótt bankarnir hafi í dómkröfu sinni tilgreint tjónsatburðinn þá skorti í stefnu að þeir sýni fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu. 

Þá skorti á skýrleika í málatilbúnaði og lánasamningar hafi ekki verið lagðir fram í málinu en ætla megi að um grundvallarskjöl sé að ræða.  Loks hafi verið lagður fram fjöldinn allur af skjölum á ensku, án íslenskrar þýðingar. Með því sé freklega brotið gegn ákvæðum laga um að þingmálið sé íslenska.

 Kröfuhafarnir telja að samhæfðar gjörðir Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og íslenskra yfirvalda hafi valdið falli eins virtasta banka landsins.  Ákvörðunin í mars 2009 um að færa innistæður viðskiptavina SPRON yfir í Nýja Kaupþing og setja skilanefnd hafi gert mánaðarlanga vinnu kröfuhafa og SPRON að lausnum, í því skyni að vernda hagsmuni allra hlutahafa SPRON, að engu. 

Kröfuhafarnir íhuga nú valkosti sína í stöðunni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert