Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson þurfa að leggja fram tryggingu fyrir því að þeir geti greitt málskostnað í meiðyrðamálum sem þeir hafa höfðað gegn fréttamönnum Stöðvar 2. Að sögn Ríkisútvarpsins var þetta niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun.
Bæði Magnús og Björgólfur hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Kröfðust fréttastjóri og fréttamaður Stöðvar 2 þess að þeir Björgólfur og Magnús legðu fram tryggingu fyrir því að þeir væru borgunarmenn ef svo færi að þeir töpuðu málinu. Héraðsdómur úrskurðaði að Magnús þyrfti að leggja fram 900 þúsund króna málskostnaðartryggingu innan tveggja vikna en Björgólfur 1400 þúsund króna tryggingu því hann stefnir tveimur mönnum en Magnús einum.
Björgólfur Thor Björgólfsson og Karl Wernersson hafa einnig stefnt fréttamönnum Stöðvar 2 vegna sömu frétta og þeir Magnús og Björgólfur, en þær fjölluðu um að þeir hefðu flutt eignir í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt hafi verið um þjóðnýtingu Glitnis.