Vilja orkuskattana af borðinu sem allra fyrst

Á fundi um framgang stöðugleikasáttmálans í gær gerðu fulltrúar orkufyrirtækja, álvera og annars orkufreks iðnaðar, auk SA og samtaka launþega, ljósa harða andstöðu sína við áformin. Þar voru viðstaddir fulltrúar fjármála- og iðnaðarráðuneyta. Samkvæmt heimildum sögðu fulltrúar nýrra verkefna á borð við kísilmálmverksmiðju, koltrefjaverksmiðju og stækkun aflþynnuverksmiðju að menn yrðu að muna að fleiri staðir væru í boði en Ísland.

„Það er eindreginn vilji manna að þessi skattlagningaráform fari út af borðinu sem allra fyrst. Þau trufla alla vinnu,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður RioTinto Alcan, spurði að því á fundinum hvort skattarnir yrðu ekki útfærðir strax á mánudag eða skýringar fengjust á þeim. Gerð raforkusamninga við Landsvirkjun er nú á lokastigum hjá því fyrirtæki, en aðspurður gat Ólafur Teitur ekki svarað því hvort þetta hefði áhrif á þá samninga.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, lýsti því á fundinum hvernig beinar og óbeinar tekjur ríkissjóðs af Helguvíkurverkefninu á byggingartíma yrðu nálægt 12 milljörðum á ári. Um sjö milljarðar í beinum tekjum en um fimm milljarðar á ári í minnkuðum atvinnuleysisbótum, ef 2.500 manns fengju vinnu við verkefnið. Eftir byggingu gætu það orðið fjórir til fimm milljarðar á ári. Eftir mun meiru væri því að slægjast í því að efla fyrirtækið en að skattleggja það með miklum þunga.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, segir að ef skatturinn verði lagður á orkufyrirtækin og þau eigi að innheimta hann, þá kunni að verða erfitt að innheimta hjá álfyrirtækjum. „Þau eru með fasta samninga, þá eiga orkufyrirtækin ekki annan kost en að leggja það á þann hluta sem þau geta hækkað á, sem er sala á almennum markaði til einstaklinga og heimila.“ Ásgeir tekur fram að hugmyndin sé óútfærð og hann geti því ekkert fullyrt um þetta.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, var á fundinum. Hann segir mjög þungt hljóð hafa verið í mönnum þar, nánast uppgjöf í loftinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert