Stöður dómsstjóra felldar niður

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. Árni Sæberg

Dómsmálaráðherra gerði grein fyrir breytingum á héraðsdómstólum, lögregluembættum og sýslumannsembættum á Alþingi í dag. Meðal annars kom fram að héraðsdómstólum verði fækkað úr átta í eina stofnun, með starfsstöðvar á landsbyggðinni. Dómurum verður ekki fækkað en stöður dómsstjóra felldar niður. Aðeins einn dómsstjóri mun starfa við „Héraðsdóm Íslands.“

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði dómstólanna glíma við þann vanda að erfitt er að skera niður, s.s. vegna þess að kjararáð ákveður laun dómara. Hins vegar gefist tækifæri til hagræðingar með því að sameina dómstóla í einn en halda starfsstöðvum á landsbyggðinni.

Einnig fór ráðherra yfir fækkun og stækkun umdæma lögreglunnar. Hún sagði meiri en helming fjárveitinga fara til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra og finna þurfi út leiðir til að hagræða hjá þeim.
Ragna sagði markmiðið að halda almennri löggæslu óskertri en minnka yfirbygginguna. Það geti hins vegar verið erfitt enda auðveldast að segja þeim upp sem eru með stystan ráðningarsamning. Það verði ekki sársaukalaust að fækka yfirmönnum en nauðsynlegt til að halda löggæslu óskertri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert