Hagar og Sena brutu samkeppnislög

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest að Hagar og Sena hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en Samkeppniseftirlitið hafi heimilað hann. Jafnframt er staðfest 20 milljón kr. sekt á Haga og 15 milljón kr. sekt á Senu vegna þessara brota.

Í samkeppnislögum er lagt bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann. Er ólögmætt að samruni komi til framkvæmda áður en hann er tilkynntur Samkeppniseftirlitinu og meðan á málsmeðferð þess stendur.

Er þessari reglu ætlað að tryggja að unnt sé með fullnægjandi hætti að vinna gegn samkeppnishamlandi samrunum, segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Mál Haga varðar samruna sem fólst í kaupum félagsins á BT-verslunum í nóvember 2008. Var sá samruni framkvæmdur af Högum áður en hann var tilkynntur Samkeppniseftirlitinu, en skylt er að tilkynna eftirlitinu tiltekna samruna. Fólst í þessu brot á umræddu ákvæði samkeppnislaga. Eftir að Samkeppniseftirlitið birti það frummat sitt að umræddur samruni væri samkeppnishamlandi gengu kaupin til baka og BT er ekki lengur í eigu Haga. Um það er fjallað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 15. maí sl.

Mál Senu tengist kaupum félagsins á Skífunni sem áttu sér stað í október 2008. Var sá samruni framkvæmdur af Senu áður en hann var tilkynntur Samkeppniseftirlitinu. Fólst í þessu brot Senu á umræddu ákvæði samkeppnislaga. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 2. apríl sl. var komist að þeirri niðurstöðu að samruni Senu og Skífunnar raskaði samkeppni. Þar sem annar aðili hafði í millitíðinni eignast Senu var talið unnt að heimila samrunann að uppfylltum skilyrðum til þess að vernda samkeppni.

Þann 26. júní sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Hagar og Sena hefðu brotið samkeppnislög með því að framkvæma viðkomandi samruna og lagði á umræddar sektir. Þeim ákvörðunum var af fyrirtækjunum skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hefur nú staðfest þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert