Innbrot, hávaðaútköll og hraðakstur

Töluvert fleiri verkefni komu inn á borð lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt en undanfarnar nætur. Tilkynnt var um tvö innbrot, í hljóðfæraverslun og á veitingastað, nokkuð var um hávaðaútköll auk þess sem tvítugur piltur var stöðvaður á 165 km hraða í Ártúnsbrekku, en þar er leyfður hámarkshraði 80 km/klst. Pilturinn var sviptur ökuréttindum á staðnum.

Lögreglan rannsakar innbrotin bæði en ekki er vitað hverjir voru þar að verki. Óvíst er hversu miklum verðmætum var stolið en í tilviki hljóðfæraverslunarinnar þurfa það ekki að vera margir munir til að tjónið sé verulegt.

Þá virðast skemmtanaglaðir hafa tekið helgina snemma og var nokkuð um hávaðaútköll í heimahús. Að sögn varðstjóra eru þau hins vegar nokkuð algeng aðfaranætur föstudags.

Hjá öðrum embættum lögreglu var öllu rólegra, og í raun ekkert fréttnæmt af landsbyggðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert