Brunaútsala á fyrirvörum Alþingis

Frá Icesave-mótmælum við Austurvöll.
Frá Icesave-mótmælum við Austurvöll. mbl.is/Kristinn

InDefence gagnrýnir viðaukasamning íslenskra stjórnvalda við Icesave-samningana harðlega. „Sá viðaukasamningur sem ríkisstjórn Íslands hefur undirritað og tilheyrandi frumvarp um breytingar á lögum nr. 96/2009 eru brunaútsala á fyrirvörum Alþingis í Icesave málinu,“ segir í fréttatilkynningu frá hópnum.

Um sé að ræða fyrirvarar sem settir hafi verið til þess að Icesave-samningar yrðu í samræmi við Brussel-viðmiðin.

Hópurinn segir það alvarlegt að viðaukasamningurinn virðist gera ráð fyrir því að fyrirvörum sem Alþingi hafi þegar sett með lögum sé stungið, með tilheyrandi frávikum á orðalagi, inn í viðaukasamninginn og þannig séu þeir ekki lengur virkir í sjálfstæðum lögum frá Alþingi. Með þessu hafi Bretum og Hollendingum tekist að knýja fram breytingar á settum lögum, breytingar sem Alþingi sé nú gert að staðfesta.

„Brussel viðmiðin hafa verið brjóstvörn Íslendinga í baráttu þeirra fyrir sanngjörnum Icesave samningum. Það er beinlínis rangt og niðurlægjandi fyrir Alþingi Íslendinga að sjá staðhæft í viðaukasamningunum að nú séu Icesave samningarnir í samræmi við Brussel viðmiðin,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að það sé ekki síður niðurlægjandi fyrir þjóð og þing að fjármálaráðherra Íslands skuli undirrita yfirlýsingu með fjármálaráðherrum Hollands og Bretlands sem feli m.a. í sér að síðarnefndu ríkin heimili endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslendinga. Sú sameiginlega yfirlýsing sé ótvíræð sönnun þess að Bretar og Hollendingar líti svo á að fjárkúgun þeirra í gegnum AGS hafi borið fullan árangur. Frá þeirra sjónarmiði sé nú fullnaðarsigur unninn í Icesave-málinu og því óþarfi að halda málefnum Íslands hjá AGS í gíslingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert