Fjarveran á eðlilegar skýringar

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, segir að fjarvera sín á fundum stjórnar Faxaflóahafna á árinu eigi eðlilegar skýringar. Dagur hætti í stjórninni í gær og segir það skýrast af því að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi skipst á um að sitja í stjórnum fyrirtækja borgarinnar á kjörtímabilinu.

„Ég er að ljúka annarri skorpu í Faxaflóahöfnum. Ég hljóp fyrsta sprettinn þar frá 2006 - 2007 og held að ég hafi þá mætt á alla fundi, nema ef vera skyldi þegar farið var í siglingu um hafnarsvæðið. Ég missti af því,“ sagði Dagur. 

Hann sagði það ekkert leyndarmál að á þessu ári hafi hann þurft að kalla inn varamann í stjórn Faxaflóahafna vegna þátttöku sinnar sem varaformaður Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni á liðnu vori. Þá hafi einn fundanna verið haldinn á óvenjulegum tíma þegar ljóst var að hann gat ekki mætt.

„Svo hittist þannig á að ég varð að afboða mig með skömmum fyrirvara 14. ágúst síðastliðinn, vegna þess að mér fæddist sonur og fékk ég hamingjuóskir frá stjórnarmönnum í Faxaflóahöfnum vegna þess - nema væntanlega frá Framsóknarmönnum,“ sagði Dagur.

Hann taldi að tilkynning Framsóknarmanna um mætingu sína í stjórn Faxaflóahafna litist af einhverju öðru en áhyggjum af frammistöðu  sinni í umræddri stjórn. Dagur kvaðst vona að kosningabaráttan vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga verði ekki á þessum nótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert