Ungir sjálfstæðismenn óánægðir með störf ríkisstjórnarinnar

Heimir félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ
Heimir félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ


Á aðalfundi Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ var samþykkt  ályktun þar sem fundurinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með störf ríkisstjórnarinnar í þágu endurreisnar og atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

„Ungir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ lýsa yfir miklum vonbrigðum með störf ríkisstjórnarinnar í þágu endurreisnar og atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Á tímum harðræðis og kreppu á það að vera markmið sérhverrar ríkisstjórnar að blása lífi og von í þjóð sína en ekki ala á vonleysi og sundrungu. Hér á Suðurnesjum hafa heimamenn lagt gríðarlega vinnu í að skapa fjölbreytt og arðbær atvinnutækifæri fyrir samfélagið. Það eru því mikil vonbrigði að ríkisstjórnin sjái leik í því að leggja stein í götu þeirra verkefna með beinum og óbeinum hætti.

Ákvörðun umhverfisráðherra um að afturkalla ákvörðun um Suðvesturlínu er bein hömlun á framkvæmdir í Helguvík, á meðan fjármálaráðherra felur sig á bak við orku- og auðlindaskatta til þess eins að hindra þær. Vinnubrögð sem þessi eru með öllu óásættanleg, sérstaklega í ljósi bágrar stöðu þjóðarbúsins og fjölda atvinnulausra. Að þessar ákvarðanir séu teknar undir verndarvæng Samfylkingarinnar sýnir best að sá flokkur stendur aðeins með atvinnusköpun í orði en ekki á borði."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert