Atvinnuleysi 8% í nóvember

Skráð atvinnuleysi í nóvember var 8% eða að meðaltali 13.357 manns og eykst atvinnuleysi um 5,3% að meðaltali frá október eða um 675 manns. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 3,3%, eða 5.445 manns.

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 13% en minnst á Vestfjörðum 2,8%. Atvinnuleysi eykst um 6,3% meðal karla en um 3,8% meðal kvenna.

Atvinnuleysið er 8,5% meðal karla og 7,3% meðal kvenna. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 7.394 og eykst úr 7.352 í lok október og er um 49 % þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok nóvember.

Töluverð fjölgun þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en 1 ár

Þeim sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar talsvert eða úr 1.700 í lok október í 2.505 í lok nóvember. Alls var 2.701 á aldrinum 16-24 ára atvinnulaus í lok nóvember en 2.538 í lok október eða um 18% allra atvinnulausra í nóvember.

Langflestir útlendinga sem eru atvinnulausir störfuðu í byggingariðnaði

Alls voru 1.831 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok nóvember, þar af 1.170 Pólverjar eða um 64% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok nóvember. Langflestir erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 658 (um 36% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá).

Samtals voru 2.521 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok nóvember í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í nóvember. Þetta eru um 17% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok nóvember.

Af þeim 2.521 sem voru í hlutastörfum í lok nóvember voru 1.580 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. lögum um minnkað starfshlutfall frá því í nóvember 2008. Í nóvember voru 800 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri. Þeim fækkaði frá október þegar þeir voru 821.

Spá 8,1-8,6% atvinnuleysi í desember

Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá nóvember til desember. Þróun síðustu vikna bendir til að svo verði einnig raunin í ár, en erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í desember 2009 aukist og verði á bilinu 8,1%-8,6%. Í fyrra var atvinnuleysið 4,8% í desember.

Alls voru 259 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok nóvember sem er fækkun um 5 frá því í mánuðinum áður þegar þau voru 264.

Alls voru 2.226 skráðir í sérstök úrræði hjá Vinnumálastofnun í nóvember, en auk þess fer mikill fjöldi í viðtöl hjá ráðgjöfum stofnunarinnar og á kynningarfundi. Þá voru 148 manns í sérstökum átaksverkefnum hjá stofnuninni og 73 voru með frumkvöðlasamning eða unnu að þróun eigin viðskiptahugmyndar í mánuðinum, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar

Námsamningar í gildi í nóvember voru 729. Alls nutu 214 manns góðs af námstengdum úrræðum í nóvember, 121 af starfstengdum og 271 manns voru í grunnúrræðum í mánuðinum. Útlendingar í úrræðum voru 152 í nóvember þar af 105 í íslensku og 24 voru á námssamningi. Vinnumálastofnun veitir einnig námsstyrki og styður heilsueflingu atvinnuleitenda og útdeilir meðal annars fjölda líkamsræktarkorta.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert