Sóley vill leiða lista Vinstri grænna

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir

Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í febrúar.

„Í vor fá Reykvíkingar tækifæri til uppgjörs við þá stefnu og það sinnuleysi sem ríkti fyrir hrun. Sitjandi meirihluti borgarstjórnar var kjörinn vorið 2006. Þá var borgin fjárhagslega sterk og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduðu meirihluta um einbýlishúsalóðir og vatnsrennibrautagarða. Í dag er staðan önnur. Reykjavíkurborg þarf á félagslegum áherslum að halda og forgangsröðun í þágu allra borgarbúa.

Ég mun hér eftir sem hingað til standa fyrir félagslegan jöfnuð, kvenfrelsi og umhverfisvernd og vinna að því að halda áherslum vinstri grænna á lofti við stjórn og rekstur borgarinnar. Aldrei  hafa þær áherslur verið borgarbúum jafnnauðsynlegar og í dag. Ég býð fram krafta mína til að móta betra samfélag, þar sem velferð og jöfnuður verða í forgrunni,“ segir í tilkynningu sem Sóley hefur sent frá sér.

Þar kemur einnig fram að Sóley, sem er fædd 1974, sé gift Aart Schalk og eigi með honum tvö börn. Sóley sé með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands og hafi unnið á vettvangi borgarstjórnar frá vorinu 2006, fyrst sem varaborgarfulltrúi og síðar borgarfulltrúi.

Hún hafi tekið virkan þátt í starfi grasrótarsamtaka, mest í þágu kynjajafnréttis og annarrar mannréttindabaráttu. Hún hafi einnig gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og hafi verið ritari flokksins frá árinu 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert