Níu prósent heimila bíllaus

Níu prósent heimila landsins voru bíllaus á árunum 2007-2008. Bílaeign hefur aukist á undanförnum árum en þetta hlutfall var 13% árið 2006, samkvæmt könnun Hagstofunnar.

Sjónvarp var ekki á 5% heimila árið 2008 en á þeim heimilum sem áttu sjónvarp voru fleiri en eitt tæki á rúmlega helmingi þeirra. Þótt 95% heimila væru með sjónvarp greiddu aðeins rúm 80% áskrift að sjónvarpsstöð. Um 40% keyptu áskrift að einni stöð og jafn hátt hlutfall að tveimur sjónvarpsstöðvum, en með sjónvarpsstöð er átt við þau fyrirtæki sem senda út sjónvarp en heimilin geta síðan keypt áskrift að einni eða fleiri rásum hjá þeim.

Tækjaeign heimilanna var í flestum tilvikum stöðug á árunum 2006 til 2008. Algengustu heimilistækin voru ísskápur, þvottavél og örbylgjuofn. Nokkur aukning hefur verið á eign á uppþvottavélum en árið 2006 áttu tæp 62% uppþvottavél en árið 2008 tæp 67% heimila.

Mótorhjól virðast einnig vera algengari, en eign heimila á þeim fór úr 3,9% árið 2006 í 4,9% árið 2008.

Tæp þrjú af hverjum tíu heimilum í rannsókninni voru áskrifendur að fréttablöðum og hefur hlutfallið lækkað síðustu ár. Um 16% heimila eru áskrifendur að bókum og rúm 20% að tímaritum og hafa þau hlutföll lækkað nokkuð frá fyrri árum.

Rannsókn á útgjöldum heimila

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert