Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, segir að áframhaldandi samstarf launþegasamtakanna við stjórnvöld hafi verið sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt sé að það muni einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan Íslendingar glíma við afleiðingar fjármálakreppunnar.
Gylfi fjallar í fréttabréfi ASÍ um skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar og fagnar því að verið sé að taka upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi. Það sé hins vegar með ólíkindum að oddvitar ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa kynnt landsmönnum þau áform sín að afnema þau ákvæði tekjuskattslaganna að persónuafsláttur fylgi verðlagi og að ríkisstjórnin ætli sér að afnema verðtryggingu persónuafsláttar. Að sama skapi komi það fólki í opna skjöldu að ríkisstjórnin ætli sér einhliða að fella niður sérstaka umsamda 3000 króna lækkun persónuafsláttar í ársbyrjun 2011, án nokkurs samráðs eða samtals við sinn viðsemjanda.
„Nú hefur komið í ljós, að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafa. Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga – slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratuga langa hefði fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðuleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám," segir Gylfi.