Hnúfubakurinn við Þorlákshöfn

Hnúfubakurinn var austan við Þorlákshöfn í morgun.
Hnúfubakurinn var austan við Þorlákshöfn í morgun. Hafrannsóknastofnunin

Hnúfubakur sem Hafrannsóknastofnunin merkti í Eyjafirði 21. október heldur sig enn skammt frá Þorlákshöfn. Hvalurinn var lengi sunnarlega í Faxaflóa en fór svo suðurfyrir og hefur undanfarið haldið sig við Þorlákshöfn. Talið er líklegt að hann sé þar í æti.

Alls hefur hvalurinn synt 4.290 km frá því hann var merktur með gervihnattasendi fyrir nærri tíu vikum. Sendirinn skráir staðsetningu hvalsins í gegnum gervihnött. Síðast barst merki frá hvalnum í morgun.

Yfirumsjón með verkefninu er í höndum Gísla A. Víkingssonar hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknastofnuninni. Gísli sagði að í fyrra hafi annar hnúfubakur verið merktur með sendi og svo virðist sem atferli hvalsins sem nú er fylgst með sé merkilega líkt atferli hvalsins sem merktur var í fyrra. 

Merki hnúfubaksins í fyrra dugði aðeins fram í byrjun desember. Þá hélt hvalurinn sig við Keflavík. Hvalurinn sem nú er fylgst með var einmitt mjög lengi utan við Keflavík.  Merkjaserían frá hnúfubaknum nú er orðin sú lengsta sem Hafrannsóknastofnun hefur fengið úr slíkum merkingum hnúfubaka. 

Almennt er talið að hnúfubakar, líkt og aðrir skíðishvalir, fari suður á bóginn á veturna og æxlist þar. Þó var vitað, aðallega frá loðnusjómönnum, að dálítið er af hnúfubak við landið allan veturinn. 

Gísli sagði að merkin sýni að hnúfubakarnir taki nokkuð langar rispur á milli þess sem þeir halda sig á sama stað dögum saman. Gert er ráð fyrir að þar hafi þeir fundið fæði og haldi sig við það meðan það býðst. 

Engar upplýsingar eru um hvað hvalurinn er að éta nú við Þorlákshöfn. Meðan hann var sem lengst fyrir utan Keflavík og Njarðvík fór Dröfn RE á staðinn og fann þar töluvert mikið af æti mjög nálægt landi. Það var of nálægt landi til að hægt væri að mæla það, en talið að um smásíld væri að ræða. 

Gísli sagði stefnt að áframhaldandi hvalamerkingum með gervihnattamerkjum. Hafrannsóknastofnunin á tvö slík merki sem verða notuð þegar tækifæri gefst.  Hann sagði lítið vitað um far hvala og hegðun utan sumatímans. Rannsóknir af þessu tagi geti bætt úr því.

Ferðir hnúfubaksins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert