Fjárlaganefnd fundar

Guðbjartur Hannesson og Björn Valur Gíslason koma til fundar í …
Guðbjartur Hannesson og Björn Valur Gíslason koma til fundar í fjárlaganefnd í morgun. mbl.is/Kristinn

Fundur fjárlaganefndar hófst upp úr klukkan 8 í morgun en þingfundur hefst að nýju klukkan 10:30. Þingfundi var frestað um miðnætti í gær og eru níu enn á mælendaskrá vegna Icesave. Formenn flokkanna munu hittast á fundi klukkan 10 og þar verður rætt um framhaldið en allt er óljós hvenær atkvæði verða greidd um Icesave.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, frestaði laust fyrir miðnætti umræðu um Icesave-frumvarpið á Alþingi en þá höfðu staðið yfir langar umræður um fundarstjórn forseta þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að hlé yrði gert á þingfundinum og kallaður saman fundur flokksformanna til að fjalla um framhaldið.

Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks – auk annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar – kröfðust þess í gærkvöldi að Svavar Gestsson, formaður íslensku Icesave-samninganefndarinnar, yrði kallaður fyrir fjárlaganefnd og skýrði ummæli sem birtast í bréfi bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya til fjárlaganefndar.

Ekki hefur tekist að ná tali af Svavari í morgun en Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við RÚV að Svavar verði ekki kallaður fyrir fjárlaganefnd. Guðbjartur segir að samkomulag hafi verið um það í fjárlaganefnd að Svavar Gestsson svari fjárlaganefnd um þetta álit en verði ekki kallaður fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert