Árni Þór: Staðan þung

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar. mbl.is/Kristinn

Utanríkismálanefnd Alþingis kom saman í morgun til að ræða stöðuna í samskiptum Íslands við Breta og Hollendinga. Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir stöðuna vera þunga í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar en unnið sé að því að lægja öldurnar.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mætti á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir viðbrögðum og aðgerðum stjórnvalda. 

„Staðan er auðvitað að mörgu leyti þung gagnvart þessum viðsemjendum okkar í þessu máli. En viðbrögðin hafa gengið út á það að reyna lægja öldurnar eins og hægt er, og reyna að tryggja það að það verði ekki neinar skjótráðnar ákvarðanir eða aðgerðir teknar sem að valda okkur skaða. Það má segja að fyrstu sólarhringarnir hafi einkennst af bráðaaðgerðum,“ segir Árni Þór í samtali við mbl.is.

Sér jákvæð teikn

Hann kveðst vera ánægður með fyrstu viðbrögð stjórnvalda í því að slökkva elda. Nú þegar megi sjá árangur af því starfi. Menn hafi fyrst og fremst einblínt á lánamálin, þ.e. gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum, og unnið að því að endurreisnaráætlunin stöðvi ekki þrátt fyrir erfiða stöðu. „Ég sé jákvæð teikn í því. Ég sé hvernig utanríkisráðherra Noregs hefur tjáð sig um þetta. Það er mikilvægt að þessar norrænu lánalínur stoppi ekki.“

Hann segir að menn verði einnig að velta stöðunni fyrir sér til lengri tíma. Fyrstu skyldur stjórnvalda séu að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hafi verið ákveðin með synjun forsetans.

Árni Þór segir að farið hafi verið yfir stöðuna, menn hafi skipst á skoðunum og viðrað hugmyndir. Fundurinn hafi hins vegar ekki leitt til neinnar niðurstöðu.

Aðspurður segir Árni Þór að hljóðið í öðrum nefndarmönnum hafi verið gott. Allir vilji finna lausn á þeirri stöðu sem sé komin upp með heildarhagsmuni Íslands að leiðarljósi.

Hann á ekki von á öðru en að nefndin verði mjög virk og að boðað verði til fleiri funda á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert