Byggja upp eftir miðbæjarbrunann

Mikið er um að vera í skemmu einni við Fiskislóð þar sem verið er að slá upp grind fyrir húsið að Lækjargötu 2. Húsið skemmdist illa í stórbruna vorið 2007, þegar Austurstræti 22 brann til grunna. Í vor á svo að endurreisa húsið ofan á nýrri steyptri jarðhæð sem verið er að byggja.

Það eru kallarnir hjá Völundarverki sem eru að setja saman grindina og allt er gert eftir gamla laginu. Að sögn Björns Bjarnasonar, flokksstjóra hjá Völundarverki, sleppa þeir algerlega að nota vinkla, skrúfur og nagla.

Grindin er gerð úr sterkum bjálkum frá 5x5 tommum og uppúr. Á bjálkana eru sniðnir lásar svo þeir falla saman og timbrið bindur sig saman nánast sjálfkrafa. Það sama gildir um gólfbitana sem sitja fastir í þar til gerðum lásum.

Ein hæð er sett upp í einu, til að sjá hvort ekki sé allt í lagi. Svo eru bitarnir númeraðir og gerðir klárir til að flytja niður í miðbæ. Það ætti því varla að taka nema augnablik að reisa grindina í vor.

Völundarverk er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar um viðhald og endurgerð sögufrægra húsa. Þar vinna sextán kallar, lærðir húsasmiðir og húsasmíðameistarar, sem allir urðu atvinnulausir á síðasta ári. En í upphafi hafði enginn þeirra reynslu af viðhaldi gamalla húsa.

Fyrst fóru þeir á mánaðarnámskeið hjá kunnáttumönnum og gerðu upp að utanverðu Norðurpól, 105 ára gamalt hús sem áður stóð við Hlemm. Þegar Norðurpóllinn veður tilbúinn fær hann að snúa aftur til síns heima, en nú er hann uppi á Stórhöfða.

Björn flokksstjóri segir verkefnið í Lækjargötunni hreina og klára himnasendingu fyrir þá félagana, enda sé allt betra en atvinnuleysið. Stefnt er á að reisa grindina við Lækjargötu 2 í byrjun apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert