Ljós í myrkrinu að finna fólk á lífi

Erfitt er að ferðast um götur höfuðborgarsinnar sökum braks.
Erfitt er að ferðast um götur höfuðborgarsinnar sökum braks. JORGE SILVA

„Þar sem við erum í miðjum þessum aðstæðum og upplifum eymdina og sorgina á eigin skinni þá er það vissulega ljós í myrkrinu og veitir ótrúlegan kraft að finna fólk á lífi,“ segir Ólafur Loftsson, stjórnandi hjá alþjóðabjörgunarsveitinni, sem staddur er í höfuðborg Haíti.

Íslenska sveitin hefur bjargað þremur einstaklingum frá því hún kom á vettvang, síðast konu í gærkvöldi í samstarfi við björgunarsveitir frá Spáni og Bandaríkjunum. Sýnt var frá björgun konunnar á sjónvarpsstöðinni CNN í morgun og talað við íslensku björgunarmennina. 

„Hún var þannig staðsett að það þurfti að fara í gegnum veggi og svo upp í gegnum gólf til að komast að henni. Og þá var gott að vera með fleiri með sér,“ segir Ólafur. Áður hafði sveitin bjargað tveimur ungum konum sem heimamenn höfðu áður fundið, en komust ekki að. Vel tækjum búin íslenska sveitin braut gat á vegg til að komast að þeim.  

Öryggi björgunarsveitarmanna hefur verið í brennidepli í kjölfar þess að nokkrir íbúar Port-au Prince, höfuðborgar Haíti, reyndu að stela bílum og birgðum hjálparstarfsmanna. Ólafur segir alveg ljóst að ástandið sé slæmt. „Sameinuðu þjóðirnar eru með í sínu prótókóli sérstök öryggisstig frá einu og upp í fimm. Við erum á þriðja stigi sem þýðir að við erum ekki í björgun á nóttunni. Ástandið á nóttunni er mjög ótryggt og einu undantekningarnar eru þegar búið er að finna einstakling löngu fyrir myrkur og unnið að því að ná honum úr rústunum.“

Þannig var ástatt hjá sveitinni í gærkvöldi, að unnið var fram í myrkur. Þurfti þá að tryggja vettvang. Það er ýmist gert með viðveru lögreglu eða friðargæsluliða.

Ástandið á eftir að versna

En þó svo að ástandið sé ótryggt yfir nóttina segir Ólafur reiði og örvæntingu íbúa höfuðborgarinnar ekki beinast gegn björgunarsveitarmönnum, ekki enn alla vega. „Þegar við könnuðum svæðið á fyrsta degi vorum við boðnir hjartanlega velkomnir og fólk kallaði vinsamleg orð til okkar. Fólkið var meðvitað um að við værum komnir til hjálpar. Hins vegar eykst auðvitað vonleysið og það má búast við því þegar matarskortur fer að segja til sín og vatnsskortur. Þá er ljóst að líkurnar á að finna fleiri á lífi minnka eftir því sem tíminn liður og því er útséð að ástandið kemur til með að versna.“

Íslenska sveitin hefur verið í hvíld í rúmar sex klukkustundir eða frá miðnætti að þeirra tíma. Aftur er haldið til starfa klukkan sjö að morgni eða kl. 12 á íslenskum tíma. Verkefni dagsins liggja ekki fyrir en forsvarsmenn allra björgunarsveita hittast fyrst á fundi. Þá kemur teymi frá Sameinuðu þjóðunum, sem heldur utan um skipulagningu björgunarstarfsins og útdeilir verkefnum.

Óhætt er að segja að íslenska sveitin hafi látið til sín taka. Hún var með þeim fyrstu á svæðið og vel búin tækjum. Íslendingar sjá m.a. um að útdeila svæðum til björgunarsveita sem koma til landsins auk þess að reka sameiginlega fundaraðstöðu forstöðumanna björgunarsveitanna, en þar er fundað tvisvar á dag. Eru þessi verkefni að sjálfsögðu fyrir utan björgunarstarfið í rústunum.

Búðir bandarískra björgunarsveitamanna á flugvellinum í Port-au Prince.
Búðir bandarískra björgunarsveitamanna á flugvellinum í Port-au Prince. KENA BETANCUR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert