Menn halda enn í vonina

Rústabjörgunarsveit íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar.
Rústabjörgunarsveit íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar. Myndir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg

„Við vorum að vakna og nú tekur við fundur þar sem farið verður yfir verkefni dagsins,“ segir Ólafur Loftsson, annar tveggja stjórnenda rústabjörgunarsveitar íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Haítí, þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum rétt um kl. 06 að staðartíma í morgun skömmu áður en birta tók á staðnum.

Að sögn Ólafs mættu forsvarsmenn allra björgunarsveitanna á svæðinu á fund nú í morgunsárið þar sem farið var yfir stöðuna eftir gærdaginn og kortlagt hvað gera ætti í dag. „Eins og síðustu tvo daga fara menn um svæðið og eru annað hvort að leita á svæðum og kanna hvort einhverjir eftirlifendur eru í rústum eða fara og sinna ákveðnum rústum þar sem tilkynnt hefur verið um fólk á lífi,“ segir Ólafur.

Spurður hvernig aðstæður til leita séu segir Ólafur þær vissulega erfiðar m.a. vegna þess hversu heitt sé á svæðinu en hitinn fer yfir 36 stig á daginn og loftrakinn er mikill. Tekur hann fram að hitinn hjálpi hins vegar þeim sem hugsanlega séu á lífi í rústum.

„Það urðu miklar skemmdir og margar byggingar hrundu, enda við því að búast að þessu svæði að byggingar séu ekki traustar,“ segir Ólafur og tekur fram að á móti komi að byggingarlag húsanna virðist gera það að verkum að þau hrynja með þeim hætti að ákveðið holrúm myndast inni í þeim. Það geti orðið fólki til lífs sem þá hefur rými til þess að hreyfa sig í rústunum, er jafnvel óslasað og hefur færi á því að kalla eftir hjálp.

Fréttir hafa borist af því að undanförnu að íbúar höfuðborgarinnar fari ránshendi um borgina vopnaðir sveðjum. Aðspurður segir Ólafur að Íslendingarnir hafi ekki orðið varir við þessi læti. Tekur hann fram að Sameinuðu þjóðirnar hafi lýst yfir ákveðnu hættustigi á svæðinu sem þýði að björgunarsveitir fái lögreglu- eða friðargæslufylgd  í öllum störfum sínum auk þess sem engar sveitir séu að vinna á nóttunni, nema brýna nauðsyn beri til, t.d. ef fólk finnst á lífi í rústum rétt fyrir sólsetur. „Ef menn telja að einhver svæði séu sérlega ótrygg þá fara menn ekki inn á þau,“ segir Ólafur.

Að sögn Ólafs tókst íslensku rústabjörgunarsveitinni að komast yfir nokkuð stórt leitarsvæði í gær. Sveitin var í samfloti við bandaríska björgunarsveit frá Flórída sem var með leitarhunda á sínum snærum sem kom að góðum notum.

„Því miður fundust engir á lífi í gær á þeim stöðum sem við fórum. Við vorum að fara á staði í gær þar sem voru þannig hrunin hús að það var talinn möguleiki á því að þar gæti verið fólk á lífi,“ segir Ólafur og tekur fram að mikilvægt sé að kanna svæði og útiloka þau. Bendir hann á að allar björgunarsveitir merki þau hús þar sem leitað sé til þess að koma í veg fyrir tvíverknað ef svo ólíklega vilji til að önnur sveit komi að sama húsi síðar.

Spurður hvort menn séu enn vongóðir um að finna fólk á lífi svarar Ólafur því játandi. Bendir hann á að vissulega sé misjafnt hve fólk geti lifað lengi í rústum án vatns og matar, það fari eftir aðstæðum m.a. hitastigi og raka. „Hér halda menn ennþá í vonina um að hægt sé að finna fólk á lífi og skýrist það fyrst og fremst af tvennu,“ segir Ólafur og vísar þar til hitans sem komi fórnarlömbum til góða og þess að víða virðist hafa myndast holrúm þegar húsin á eyjunni hrundu.


Rústabjörgunarsveit íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar að störfum.
Rústabjörgunarsveit íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar að störfum. Myndir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Ólafur Loftsson.
Ólafur Loftsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert