Greiði Glitni 1,1 milljarð

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt félagið Skilding ehf., sem var einn aðaleigandi FL Group, til að greiða skilanefnd Glitnis  rúmlega 1,1 milljarð króna lán, sem félagið tók hjá bankanum árið 2007.

Dómurinn staðfesti einnig kyrrsetningu Glitnis á rúmlega 91 milljónar króna inneignar Skildings á bankareikningi hjá Íslandsbanka. 

Skildingur er eignarhaldsfélag í eigu fyrrverandi stjórnenda Flugleiða sem var stofnað árið 2004 um eignarhald á bréfum í Flugleiðum og síðar FL Group. Er Sigurður Helgason, fyrrverandi forstjóri Flugleiða, stærsti hluthafinn í Skildingi.

Félagið tók tvö lán hjá Glitni til þriggja ára í september 2007, annars vegar 1,245 milljarða og hins vegar 255 milljónir króna. Voru sett að handveði öll þau verðbréf, sem voru í vörslum Glitnis á tilteknum vörskureikningum í eigu félaganna Skildings og   Túskildings.

Skilanefnd Glitnis gjaldfelldi lánin í febrúar 2009 þar sem tryggingar fóru niður fyrir tiltekið lágmark.  Skildingur mótmælti og þá gerði Glitnir félaginu veðkall sem Skildingur sinnti ekki og þá voru bæði lánin gjaldfelld.

Skilanefndin höfðaði innheimtumál og miðaðist  krafan, 1,1 milljarður króna, við að innleyst hafi verið af veðsettum bankareikningi Skildings 546 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert