Kaka í tilefni dagsins

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sker kökuna góðu og Steingrímur J. Sigfússon, …
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sker kökuna góðu og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fylgist með mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórn Íslands gæddi sér á köku á ríkisstjórnarfundi í morgun í tilefni af því að eitt ár var í gær frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skar kökuna góðu en hollustan  var höfð í fyrirrúmi við gerð kökunnar.

Meðal hráefnis í kökunni er íslenskt bygg en nú stendur yfir árleg tannverndarvika. Að vísu er sjónum hennar einkum beint að tannheilsu barna en ekki tannhirðu ráðherra.

Ríkisstjórnarfundur stendur yfir í Stjórnarráðinu en ríkisstjórnin sem nú situr hefur verið við völd frá því í maí. Einn ráðherra hefur sagt af sér frá þeim tíma, Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, baðst lausnar í lok september vegna Icesave-málsins og Álfheiður Ingadóttir tók við embætti heilbrigðisráðherra. 

Ríkisstjórnin sem Samfylkingin og VG mynduðu þann 1. febrúar í fyrra með stuðningi Framsóknarflokksins, er fyrsta hreina vinstristjórnin sem ríkt hefur á Íslandi frá stofnun lýðveldisins. Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að ríkisstjórnin nýtur stuðnings um helmings kjósenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert