Ofbýður ástandið á ritstjórnum landsins

Félag fjölmiðlakvenna samþykkti ályktun á fundi í gærkvöldi þar sem skorað  er á stjórnvöld og yfirmenn fjölmiðla að gera allt sem í þeirra valdi standi til að rétta hlut kvenna á fjölmiðlum landsins. Segir í ályktuninni að félaginu ofbjóði ástandið á ritstjórnum fjölmiðla landsins.

„Hlutur kvenna hefur ávallt verið rýr innan fjölmiðla. Uppsagnir hafa orðið til þess að konur eru ekki eins sýnilegar á fjölmiðlum og áður og þróunin er uggvænleg. Engar konur eru meðal æðstu stjórnenda stærstu fréttamiðla landsins og í hópi næstráðenda er hlutur kvenna aðeins um þriðjungur. Konum hefur einnig snarfækkað í hópi almennra blaða- og fréttamanna og þáttastjórnenda og var hlutfallið ekki gott fyrir. Einsleitur hópur karla er ráðandi í ákvörðunum um efnistök sem er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að nú á sér stað endurmótun íslensks samfélags," segir í ályktun fundarins sem um 100 konur sóttu.

„Félag fjölmiðlakvenna harmar uppsagnir kvenna sem hafa gagnrýnt yfirmenn og eigendur fjölmiðla og krefst þess að hneykslanlegar uppsagnir á reyndum fjölmiðlakonum síðustu misserin verði leiðréttar og þær ráðnar aftur til starfa. Um leið styður félagið heils hugar við bakið á þeim konum sem eftir eru á ritstjórnum fjölmiðla og hvetur þær til góðra verka," segir einnig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert