SV-lína áfram á ís

Rafmagn sem flytja á með SV-línu á m.a. að fara …
Rafmagn sem flytja á með SV-línu á m.a. að fara í álver í Helguvík. Rax / Ragnar Axelsson

Engar ákvarðanir verða teknar af hálfu Landsnets um að hefja undirbúning að lagningu Suðvesturlínu fyrr en í fyrsta lagi í lok mars. Ástæðan er sú að verkefni þeirra sem ætla að nota háspennulínuna eru í biðstöðu.

Umhverfisráðuneytið staðfesti í lok janúar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur og öðrum framkvæmdum sem henni eru háðar og/eða eru á sama svæði. Skipulagsvinnu við línuna var þar með lokið.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sagði í samtali við mbl.is að rætt hefði verið óformlega við orkufyrirtækin, Norðurál og aðra þá sem ætla að nota línuna, en málið væri enn í biðstöðu.

„Okkar hlutverk er þannig að við dönsum eftir ákvörðunum annarra,“ sagði Þórður. „Okkar verkefni hafa raunverulega öll verið sett á ís og ekki verið settur neinn kostnaður í að halda áfram þróun við flutningskerfið eða neitt annað. Við erum bara að skoða okkar innri mál, verkferla og betrumbæta okkar mál og undirbúa okkur þannig undir að takast á við verkefnin þegar þau koma í hús.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert