Skref í mikilvægri framkvæmd

Sultartangalón.
Sultartangalón. Rax / Ragnar Axelsson

„Við teljum rétt við þessar aðstæður að skipta verkefninu upp í tvo hluta, undirbúningshluta sem er mikilvægt að vinna að sumarlagi, og hins vegar aðalverkefnið sem verður hugsanlega boðið út á miðju ári þar sem heildarverkið er boðið út,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á blaðamannafundi þar sem Landsvirkjun hélt í morgun.

Þar kom fram að ákveðið hefði verið að óska frá og með morgundeginum eftir tilboðum vegna undirbúningsframkvæmda við Búðarhálsvirkjun.

„Þetta er í raun sá hluti verksins sem hefði verið unninn í sumar ef allt verkið hefði verið boðið út í heilu lagi,“ sagði Hörður og tók fram að með þessu móti væri reynt að tryggja að verkið væri á áætlun og ekki háð árstíðarbundnum hindrunum.

Fram kom í máli Harðar að aðeins fjármögnun undirbúningsvinnunnar væri lokið en enn ætti eftir að fjármagna heildarverkið. Sagðist hann menn bjartsýna um að samningar um bæði orkusölu og fjármögnuð næðust á næstu mánuðum, en það væri vissulega háð ýmsum atriðum sem þyrftu að klárast á sama tíma. Nefndi hann í því samhengi að  fjármögnun erlendis væri háð lausn á Icesave-deilunni. 

Tók hann fram að næðust samningar um orkusölu og fjármögnun fljótlega væri hægt að bjóða út alla virkjunina á vordögum 2010. Að sögn Harðar er verið að ræða við Alcan um að selja þeim orkuna vegna stækkunar álversins í Straumsvík.

„Við erum mjög ánægð með að menn skuli núna vera að taka skref fram á við í þessari mikilvægu framkvæmd. Ég tala ekki um þegar við horfum til þess að helstu erfiðleikar okkar við orkuöflun framundan er fjármögnunin. En á meðan svo er skiptir máli að við séum að taka skref fram á við sem valda því að þegar fjármögnun kemur þá geti menn farið hratt af stað og það verði ekki hindranir í vegi,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra. 

„Þegar við erum að tala um framkvæmd sem þessa þar sem allt er tilbúið, þ.e. allt skipulag og öll leyfi og menn geta farið af stað í framkvæmdina þá skiptir það öllu máli. Það sem er verið að gera hér í dag er að tryggja það að árstíðir eða annað slíkt verði þess ekki valdandi að menn þurfi að bíða eftir að fara af stað þegar fjármögnun þessara framkvæmda er orðin að veruleika.“ 

Hörður Arnarson
Hörður Arnarson Þorvaldur Örn Kristmundsson
Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert