Kráin Celtic Cross borin út

Kráin verður að fara úr húsnæðinu. Myndin er úr myndasafni.
Kráin verður að fara úr húsnæðinu. Myndin er úr myndasafni. Kristinn Ingvarsson

Kráin Celtic Cross verður borin út úr húsnæði sem hún hefur haft á 1. hæð og í kjallara að Hverfisgötu 26, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag. Eigandi húsnæðisins, Festar ehf., fór fram á útburðinn. 

Festar ehf. eignuðust alla húseignina að Hverfisgötu 26 í september 2007. Húsnæðið var þá í útleigu og yfirtók nýr eigandi leigusamning við Eignasögu sem framleigði húsnæðið tveimur öðrum leigutökum. Ágreiningur var um uppgjör á leigu og var aðalleigusamningi sagt upp.

Leigjendum var boðið að gera nýja leigusamninga við hinn nýja eiganda og þáði annar það. Eigandi kráarinnar, Celtic á Íslandi ehf.,  taldi sig hins vegar vera bundinn af eldri leigusamningi og kvaðst hafa greitt leigugreiðslur samviskusamlega til viðsemjanda síns.

Dómurinn leit svo á að Festar ehf. hafi rift leigusamningi um eignina með réttum hætti. Því beri að heimila útburðinn. Frávísunarkröfu Celtic á Íslandi ehf. var hafnað. Þá var félaginu gert að greiða Festum ehf. 150.000 kr. í málskostnað.

Dóminn kvað upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert