Gullkarfi eða djúpkarfi

Á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins er birt svar við auglýsingu frá Guðmundi Runólfssyni hf í Grundarfirði, sem birtist í Morgunblaðinu í fyrradag undir fyrirsögninni "sveiattan". Þar kom fram að fyrirtækið hefur sérhæft sig í veiðum á gullkarfa, en ekkert veitt af djúpkarfa.

Verði frumvarp um breytingu á  úthlutun aflamarks í karfa að lögum verður aflamarki úthlutað í hvorum stofni fyrir sig. Í svarinu er það sérstaklega áréttað að samkvæmt breytingartillögu verður  ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á reiknigrunni og úthlutun aflahlutdeildar á grundvelli hans til þess að unnt verði að skoða sérstök tilvik sem upp kunna að koma við skiptinguna.

Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf, sagði í Morgunblaðinu í dag að miða hefði átt við aflareynslu, því hún væri þekkt í hvorri tegund um sig frá síðustu aldamótum. Í svari ráðuneytisins  að ekki sé eins einfalt og það virðist að horfa til aflareynslu síðastliðinna þriggja ára.

Nefnd eru atriði sem einkum skapi  vanda við úthlutun, byggða á veiðireynslu:

1. Flutningur aflamarks og aflahlutdeilda á síðustu árum milli skipa geta valdið því að úthlutun byggð á veiðireynslu sl. þrú ár, væri mjög fjarri því að vera í samræmi við nýtingarmöguleika þess skips sem nú væri úthlutað veiðiheimildum.

2. Skipting á grunni veiðireynslu yrði að byggja á gögnum, sem því miður í þessu tilviki eru ónákvæm og nær ónothæf sem grundvöllur úthlutunar að mati sérfræðinga. Hún væri byggð á löndunargögnum, sem eru víða ónákvæm því tegundunum hefur verið stjórnað sem einni einingu og sjálfsagt víða virst lítill tilgangur að halda vel utan um hana í hinu daglega amstri.

Skiptingin þyrfti síðan helst að byggja á grunnvelli upplýsinga úr sýnatöku frá veiðisvæðum og skráningu í afladagbækur. Þó þessar skráningar gefi nokkuð áreiðanlegar niðurstöður út frá vísindlegu sjónarmiði, þá er breytileiki í nákvæmni færslna milli einstakra skipa því miður alltof mikill.

 Í svari ráðuneytisins segir: „Ráðuneytinu var hins vegar vel kunnugur sá vandi sem af jafnri skiptingu myndi leiða og kynnti hann sérstaklega fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis þegar hún fékk frumvarpið til meðferðar. Í kjölfar þess bauð nefndin forsvarsmanni fyrirtækisins „Guðmundur Runólfsson hf.” sérstaklega að mæta á fund nefndarinnar og útskýra sitt mál.

Enn var því á ný reynt að koma til móts við þann aðila sem augljósast var að yrði mjög óánægður með þá skiptingu sem lögð var til í frumvarpinu. Að hálfu nefndarinnar, með aðstoð ráðuneytisins, var lögð mikil vinna í þetta mál. Voru hagsmunaaðilar og eftirlitsstofnanir kvaddar til á nýjan leik til að fara yfir málið. "

Lokaorðin í svari  ráðuneytisins eru þessi: „Það verður að teljast nokkuð óvenjulegt að málsaðilar beiti fyrir sig heilsíðuauglýsingum í dagblöðum til að leggja áherslu á sitt mál, sérstaklega í ljósi þeirrar forsögu sem hér hefur verið rakin og vegna þess mikla samráðs og vinnu sem stjórnvöld hafa lagt fram í málinu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert