Annríki við björgunarstörf á Fjarðarheiði

Færðin er oft erfið á Fjarðarheiði.
Færðin er oft erfið á Fjarðarheiði. mbl.is/Steinunn

Það hefur verið annríkt hjá félögum í björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði en erfið færð hefur verið á Fjarðarheiði í dag og ökumenn lent þar í vandræðum.

Fram kemur á bloggsíðu Helga Haraldssonar á Seyðisfirði, að dagurinn hófst með útkalli um klukkan 9 en þá sátu nokkrir bílar fastir á heiðinni. Björgunarveitarmenn voru kallaðir aftur út um klukkan 13 til að aðstoða ökumenn og fylgja jeppa yfir heiðina til Egilsstaða.

Nokkrir veðurtepptir Seyðfirðingar voru í söluskálanum á Egilsstöðum og var bíll sveitarinnar fylltur af fólki og haldið heim. Þá bárust fréttir af því að ruðningstæki væru komin af stað og fóru björgunarsveitarmennirnir þá aftur upp á heiði til að fjarlægja bíl sem skilinn var eftir um morguninn.

Skömmu síðar kom enn ein hjálparbeiðnin en þar var um að ræða fjórhjóladrifinn fólksbíl sem var fastur. Á leiðinni komu björgunarsveitarmennirnir að öðrum bíl föstum og var hann þvert á veginum. Tókst að losa báða bílana.

Skömmu eftir að komið var til byggða barst hjálparbeiðni frá Neyðarlínunni í gegnum talstöð um fólksbíl í vandræðum á heiðinni og fóru félagar í Ísólfi til að aðstoðar hann og fylgja til Egilsstaða í þæfingi og slæmu skyggni. Á leiðinni heim barst enn ein hjálparbeiðnin vegna útafaksturs.

„Eftir þetta komumst við heim og var klukkan þá orðin hálf sjö og menn orðnir nokkuð svangir eftir heiðarvolkið. Þegar hér var komið vorum við búnir að eyða rúmlega 100 lítrum af olíu og orðnir hálf þreyttir eftir langan dag. Svona eru nú sumir dagar á Fjarðarheiðinni okkar," skrifar Helgi og segir að 6 björgunarsveitarmenn hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Bloggsíða Helga 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert