Umræðan um ECA slitin úr samhengi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Umræðan um starfsemi fyrirtækisins ECA hefur öll verið slitin úr samhengi,“ sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í dag. Sagði hann málið hafa verið unnið í fullu samráði og samvinnu við ríkisstjórnina. Minnti hann á að fyrirtækið muni eingöngu vinna með ríkisstjórnum sem samþykktar hafa verið af hálfu ESB sem og íslenskra stjórnvalda.

„Starfseminni mun fylgja mikil uppbygging og atvinnusköpun á Suðurnesjum, enda þarf sem dæmi að ráða 60-100 flugvirkja til að sinan viðhaldi á flugflota þeirra,“ sagði Jón og tók fram að það væri sér mikil vonbrigði að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær hefur samgönguráðherra ekki orðið við beiðni hans  um utandagskrárumræðu um málið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók undir með Jóni. „Í þriðja sinn á örfáum vikum rísa hér upp á afturlappirnar öfgaöfl innan stjórnarflokkanna sem ætla að koma í veg fyrir brýna og þarfa atvinnuuppbyggingu á svæði sem er að glíma við mikið atvinnuleysi,“ sagði Ragnheiður og hélt áfram:

„Einkaspítali, það mátti ekki af því það var orðið einka. Þá er það skotið niður. Virkjanir, það má ekki virkja eða nýta orkuna nema til einhverra verkefna sem þessu fólki eru þóknanlegir. Og núna kemur hér fyrirtæki sem væri sannarlega hægt að skilgreina sem nýsköpunarfyrirtæki. Nei, þá er talað um hernaðarfyrirtæki og þar að auki einkaher sem hlýtur að vera það ógeðslegasta sem þetta fólk getur hugsað sér.“

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagði það andstætt stefnu VG sem og ríkisstjórnarsáttmálans að stuðla að hernaðaruppbyggingu. Minnti hann á að kveðið væri á um það í ríkisstjórnarsáttmálanum að framlag Íslands ætti að vera á sviði friðarumleitana.

Atli gagnrýndi þá leynd sem hvíldi á ECA, enda mætti ljóst vera að hér væri um skúffufyrirtæki að ræða enda fyndist ekkert um það á veraldarvefnum væri leitað þar. Gagnrýndi hann þingmenn fyrir að skapa óraunhæfar væntingar um hugsanleg atvinnutækifæri samhliða uppbyggingu starfsemi ECA hérlendis og sagði að svo virtist að þingmenn notuðu málið til þess að slá pólitískar keilur.

Jón sagði hræsnina sem virtist ríkja í umræðunni. Minnti hann á að fjármálaráðherra hefði á síðasta ári ekkert gert neinar athugasemd við starfsemi ECA í útvarpsviðtali þar sem um væri að ræða vopnlaust fyrirtæki. Sagði hann rangt að starfsemi ECA væri leyndarmál, enda væri hægt að lesa um fyrirhuguð áform ECA á heimasíður þess. „Þessi ríkisstjórn kemst ekkert áfram með atvinnumálin hér í þessu landi. Hún verður að fara frá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert