Vilja sporna við kennitöluflakki

Lilja Mósesdóttir á Alþingi
Lilja Mósesdóttir á Alþingi Kristinn Ingvarsson

Þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Þór Saari og Vigdís Hauksdóttir hafa lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög til að draga úr kennitöluflakki. Er þar lagt til að hægt verði að synja félagi um skráningu ef eigendur þess hafa ítrekað tekið þátt í rekstri sem hefur farið í þrot.

Segir í greinargerð með frumvarpinu að tilgangur þess sé sá að slá varnagla við því að helstu eigendur og stjórnendur geti í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar orðið uppvísir að því að keyra fyrirtæki sín í þrot ítrekað.

„Það er meginregla félagaréttar í tilviki einkahlutafélaga og hlutafélaga að enginn félagsmanna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Að baki reglunni búa sanngirnisrök og að einstaklingar eigi að hafa tækifæri til að hefja atvinnurekstur án þess að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sem af því leiðir.

Undanfarin ár hafa margir yfirfært rekstur yfir á hlutafélagaform sem m.a. má þakka tilkomu einkahlutafélaga, skattalegu hagræði og tískustraumum.

Skiptar skoðanir eru uppi um ágæti þessarar þróunar en framan af hefur verið talið að hún leiddi til aukinnar verðmætasköpunar. Efasemdir um þetta hafa þó ágerst eftir bankahrunið haustið 2008. Nefna mætti í því sambandi áhyggjur af því að ráðandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja misnoti aðstöðu sína innan félaganna eða haldi áfram þátttöku í atvinnulífinu skömmu eftir gjaldþrot þeirra eins og ekkert hafi í skorist, t.d. með þeirri aðferð að flytja eignir hins gjaldþrota félags yfir í nýtt félag en skilja skuldirnar eftir," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert