Þórsmörk og Sólheimajökli lokað

Unnið er að rýmingu á svæðinu næst gosstöðinni.
Unnið er að rýmingu á svæðinu næst gosstöðinni. Kristinn Garðarsson

Búið er að loka tímabundið veginum inn í Þórsmörk og eins hefur leiðinni upp á Sólheimajökul verið lokað. Þessi ákvörðun er varúðarráðstöfun og verður endurskoðuð þegar frekari upplýsingar berast um ástand mála á Fimmvörðuhálsi, samkvæmt tilkynningu úr Samhæfingarmiðstöð.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er verið að vísa fólki í Þórsmörk í Langadal. Nokkrir tugir manna eru í Þórsmörk og nokkur hundruð á jöklinum og við gosstöðina á Fimmvörðuhálsi. 

Rýming svæðisins í kringum eldstöðina hófst um kl. 20.00 í kvöld og er reiknað með að henni verði lokið um kl. 22.00 til 22.30 í kvöld. Þyrlur eru notaðar til að flytja fólk af jöklinum.

Sveinn Kr. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli sagði að fólk hafi verið „alveg ofan í“ þar sem gossprungan opnaðist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka