Hefur ekki áhyggjur af kjötinu

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segist ekki hafa áhyggjur þó 140 tonn af langreyðakjöti hafi verið flutt í land í Rotterdam. Hann hyggst finna aðra leið til að koma því til Japan. Hann segir skipafyrirtækið hafa hætt við flutninginn vegna hótanna hollenskra grænfriðunga.

Hópur hollenskra grænfriðunga hlekkjaði sig við landfestar flutningaskips í höfninni í Rotterdam í morgun og voru allir handteknir. Fullyrtu þeir að sjö  gámum með langreyðakjöti frá Íslandi hefði verið skipað um borð í skipið og ætti að flytja kjötið til Japans.

Kristján staðfesti að það væri rétt. Einnig að kjötið hafi verið flutt í land og skipafélagið neiti að flytja það áfram. Segir hann ástæðuna helst hótanir grænfriðunga í garð skipafélagsins. Hann segist að sjálfsögðu fylgjast grannt með enda miklir hagsmunir í húfi.

Skipið átti að leggja úr höfn áleiðis til Japans klukkan 16 að íslenskum tíma í dag. Kristján segir ekki víst hvað gerist næst, hvort kjötið verði flutt til Íslands eða beint frá Rotterdam til Japans.

Hvalur verkaður í Hvalfirði.
Hvalur verkaður í Hvalfirði. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert