Námsmenn fái sumarstörf í ár

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra telur allar líkur á að aðgerðir stjórnvalda dugi til að tryggja námsmönnum sumarstörf í ár. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn nemanda við Háskólann í Reykjavík.

„Háskólinn okkar, Háskóli Reykjavíkur, getur ekki boðið okkur uppá lánshæft nám í sumar," segir nemandinn um sig og kærasta sinn, en þau eru á þrítugsaldri. „Við höfum því ekki kost á námi í sumar og ekki atvinnuleysisbótum. Hvað verður þá um okkur ef við höfum ekki kost á vinnu heldur??? Nemar sem ekki eru í námi og ekki hafa vinnu yfir sumartímann eru ekki nemar heldur atvinnuleysingjar," segir hún ennfremur. Póstinn sendi hún á allan þingheim.

„Við erum að vinna að stuðningi ríkisins við framboð sumarstarfa í sumar. Þegar liggur fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður mun styrkja allt að 830 sumarstarfa með allt að 250 milljónum í sumar. Sveitarfélög og opinberar stofnanir munu geta sótt í þennan sjóð til að koma af stað sumarvinnuverkefnum. Nánari útfærslur þessa verða kynntar á næstu vikum. Til viðbótar hefur menntamálaráðuneytið í samvinnu við Reykjavíkurborg staðið fyrir aukningu í Nýsköpunarsjóði námsmanna, sem á nú að tryggja allt að 400 námsmönnum störf í sumar.

Ég tel allar líkur á að þessar aðgerðir eigi að tryggja námsmönnum sumarstörf. Ekki má heldur gleyma árstíðabundinni aukningu í framboði starfa í atvinnulífinu almennt. Þannig má minna á ferðaþjónustuna, sem skapaði mörg sumarstörf í fyrra og mun áreiðanlega gera það áfram," segir Árni Páll í svari sínu, sem sent var á fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert