Björgvin segist ekki hafa sýnt af sér vanrækslu

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. mbl.is/Kristinn

„Ég hafna því eindregið að hafa sýnt af mér vanrækslu eða að mér hafi orðið á mistök í þeim efnisatriðum sem nefndin ber fram,“ segir í svarbréfi Björgvins G. Sigurðssonar til Rannsóknarnefndar Alþingis. Í bréfinu eru rakin fjölmörg atriði sem að sögn nefndarinnar vekja spurningar um hvort Björgvin hafi, sem viðskiptaráðherra, sýnt af sér vanrækslu.

Vissu um stöðu mála

Meðal þess sem nefndin nefnir í bréfinu, er að Björgvini hafi átt að vera ljóst hvaða upplýsingar um stöðu fjármálafyrirtækjanna hafi komið fram í vinnu samráðshóp ýmissa ráðuneyta og stofnana um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Einnig hafi áhyggjur Seðlabankans og Fjármálaeftirlits átt að vera honum kunnar.

Björgvin hafi ekki, skv. gögnum og upplýsingum nefndarinnar, greint ríkisstjórninni frá því sem fram kom í vinnu samráðsnefndarinnar né fylgt því eftir að ráðist yrði í gerð viðbúnaðar- og aðgerðaráætlunar af því tagi sem Seðlabanki og Fjármálaeftirlit töldu þörf á.

Þá er gagnrýnt að Björgvin hafi ekki lagt til að fjármálafyrirtæki drægi úr stærð sinni, þrátt fyrir varúðarorð ýmissa alþjóðlegra stofnana og erlendra sérfræðinga þess efnis að fyrirtækin væru orðin hættulega stór.

Ofangreind atriði, auk ýmissa til viðbótar, eru í bréfinu sögð vekja spurningar um hvort Björgvin hafi, sem viðskiptaráðherra, sýnt af sér vanrækslu í starfi.

Gagnrýnir vinnubrögð nefndarinnar

Í svarbréfi Björgvins segir hann það skorta á að Rannsóknarnefndin útskýri með hvaða hætti hann sem viðskiptaráðherra hafi borið ábyrgð á framkvæmd og eftirliti með lögum og reglum um fjármálastarfsemi á þeim tíma sem um ræðir.

Þá bendir Björgvin á að viðskiptaráðuneytið hafi haft pólitískt frumkvæði að breytingum á lögum um innistæðutryggingasjóð og undirbúningi neyðarlaga 2008.

Hann segir það ekki hafa verið innan verkahring viðskiptaráðuneytisins, heldur lagaskylda annarra stofnana, að krefjast þess að viðskiptabankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn. Né hafi það verið hlutverk hans að þrýsta á um fjárhagslega fyrirgreiðslu til Landsbankans vegna Icesave-reikninganna.

Loks bendir hann á að forsætisráðherra, sem hafði forræði á efnahagsmálum og hagstjórn, kaus að hafa samráð við utanríkisráðherra öðrum fremur um framvindu efnahagsmála. „Um þetta var fullt samkomulag og í samræmi við þá hefð sem skapast hafði, að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna höfðu í þessum efnum nánasta samráðið sín á milli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert