Flæðir yfir tún á Þorvaldseyri

„Það er þegar orðið tjón hjá mér. Aur flæðir yfir túnin. Það er sárt að sjá þetta því túnin voru orðin græn,“ segir Ólafur Þorvaldsson, bóndi á Þorvaldseyri. Stórflóð er við Þorvaldseyri.

Gríðarlega stór tún eru á Þorvaldseyri, en þar er eitt stærsta kornræktarbú landsins. Ólafur segir að leiðslur fyrir heitt vatn, kalt vatn og rafmagn liggi á þessu svæði og honum finnst ólíklegt að þær þoli þessar hamfarir.

Ólafi var gert að fara af svæðinu. Hann sagði að það hefði verið erfitt. „Það er erfitt fyrir bónda að þurfa að fara; vitandi af 200 gripum í fjósi.“Ekki er talið að nautgripirnir séu í hættu.

Rúnar Pálmason blaðamaður Morgunblaðsins kom að flóðinu við Þorvaldseyri um hádegisbil í dag. Hann segir að mjög harður straumur sé í ánni og krapi. Vatnið sé kolmórautt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert