Kókaín í kílóatali

Lögreglan.
Lögreglan.

Átta manns, sjö karlar og ein kona, eru í haldi lögreglu grunuð um aðild á innflutningi kókaíns hingað til lands frá Spáni. Sjö þeirra voru í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðuð í gæsluvarðhald til 23. apríl og eitt til 30. apríl, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni.

Um er að ræða fíkniefni í kílóatali en nemur þó ekki tugum kílóa, samkvæmt heimildum mbl.is. Gæsluvarðahaldsúrskurðirnir voru kveðnir upp um þarsíðustu helgi.

Lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum rannsaka málið í sameiningu og hafa notið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra og tollyfirvalda. Europol hefur einnig komið að málinu. Fíkniefnin sem hér um ræðir voru falin í ferðatöskum.

„ Fimm mannanna voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu um þar síðustu helgi en sjötti maðurinn og konan voru handtekin á Keflavíkurflugvelli á sama tímabili og var það fyrir árverkni tollvarða.

Einn karl til viðbótar var handtekinn sl. fimmtudag en sá var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. apríl eins og að framan greinir. Megnið af fólkinu hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, mismikið þó. Hinir grunuðu eru allir íslenskir og á þrítugs-, fertugs-, fimmtugs- og sextugsaldri.

Rannsókn málsins er nokkuð umfangsmikil en það snýst í raun um tvær tilraunir til innflutnings á kókaíni. Í öðru tilvikinu var afhendingu fíkniefnanna fylgt eftir, þ.e. frá því að svokallað meint burðardýr kom því í hendur viðtakenda.

Rannsóknin miðar jafnframt að því að tengja málin  við önnur sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis, þar sem Íslendingar hafa komið við sögu. Vegna þessa hefur Europol haft aðkomu að rannsókninni.

Eins og fyrr segir er rannsóknin töluvert víðtæk en í tengslum við hana hefur lögreglan framkvæmt allmargar húsleitir. Í þeim hefur verið lagt hald á umtalsverða fjármuni sem og skartgripi.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert