Viðbúnaður virkjaður á höfuðborgarsvæðinu

Öskuský yfir Suðurlandi.
Öskuský yfir Suðurlandi. Reuters

Reykjavíkurborg hefur í varúðarskyni virkjað viðbragðsáætlanir sínar í samræmi við ákvarðanir Almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins, jafnvel þó að hverfandi líkur séu á að öskufall verði á höfuðborgarsvæðinu að mati Veðurstofu Íslands.

Er það gert til að tryggja viðeigandi vöktun og undirbúning í ljósi eldgossins í Eyjafjallajökli, að því er fram kemur í tilkynningu frá borgaryfirvöldum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum og vatnsbólum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. 
 
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hefur á undanförnum dögum fundað með starfsmönnum Reykjavíkurborgar og Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins vegna hugsanlegra áhrifa eldgossins. Borgarstjóri segir að borgaryfirvöld fylgist grannt með gangi mála

„Við höfum orðið vör við þörf borgarbúa fyrir upplýsingar. Það er okkar verkefni nú að sjá til þess að þjónusta og stofnanir borgarinnar séu undir það búin að bregðast við hugsanlegu öskufalli hér á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum verið að virkja og yfirfara áætlanir og fylgjumst með þróun mála. Borgarbúar geta treyst því að verði breytingar á ástandinu munu borgaryfirvöld sinna upplýsinga- og viðbragðshlutverki sínu,“ segir Hanna Birna í tilkynningu.
 
Viðbragðsteymi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar fylgist með loftgæðum í borginni allan sólarhringinn í gegnum þrjár mælistöðvar. Að mati Heilbrigðiseftirlitsins er ekki ástæða til sérstakra varúðarráðstafana vegna hugsanlegs öskufalls í Reykjavík á þessari stundu. Ennfremur fylgist eftirlitið vel með vatnsbólum en talið er ólíklegt að neysluvatn Reykvíkinga spillist jafnvel þótt aska berist yfir borgina enda er neysluvatnið fengið af allnokkru dýpi úr miklum grunnvatnsstraumum.
 
Tryggt verður að allar starfseiningar Reykjavíkurborgar fái ítarlegar upplýsingar í tengslum við hugsanlegt öskufall í borginni.  Sérstaklega er fylgst með gangi mála í skólum og leikskólum borgarinnar. Upplýsingar um viðbrögð þeirra vegna hugsanlegs öskufalls er að finna á www.menntasvid.is og www.leikskolasvid.is.
 
Íbúar eru hvattir til fylgjast vel með fréttum og kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is og heimasíðu landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is. 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert