Gosmökkurinn hefur minnkað mikið

Gosstöðvarnar séðar frá Valahnúki klukkan 13 í dag.
Gosstöðvarnar séðar frá Valahnúki klukkan 13 í dag.

Greinilegt er á myndum, sem teknar voru á vefmyndavél Mílu á Valahnúki, að mökkurinn frá gosinu í Eyjafjallajökli hefur minnkað mjög frá því í gær. Búið er að opna lofthelgina í Evrópu en flest Evrópuríki neyddust til að loka flugvöllum sínum í allt að 6 daga vegna ösku frá gosinu.

Ekki er gert ráð fyrir að aska nái upp að 20.000 fetum, 6-7 kílómetra hæð, á næstu dögum.  Öskufall verður áfram suður og suðaustur af jöklinum í dag en vindátt snýst svo í norðaustur og mun öskufallið færast í suðvestur í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur þeytigosið minnkað.  Gosmökkur og öskumyndun hafa minnkað verulega.  Skjálftamælar og GPS mælingar á landsigi sýna þó að ekkert lát virðist vera á kvikustreyminu og því bendir ekkert til þess að kvikuvirknin í fjallinu sé að minnka.  

Áætlað er að 95 þúsund flugferðum hafi verið aflýst víða um heim vegna gosöskuskýsins frá því það byrjaði að hafa áhrif á flugumferð 15. apríl. Nærri 7 milljónir manna, aðallega Evrópubúar, sátu fastir á flugvöllum víðsvegar um heiminn, að því er  Royal Bank of Scotland áætlar.

Alls voru 313 evrópskir flugvellir lokaðir 18. apríl en um þá fara um 80% flugumferðar í álfunni. Áætlað er að tekjutap evrópskra flugvalla hafi numið 1,26 milljörðum evra, jafnvirði 215 milljarða króna. Þá áætlaði IATA, alþjóðsamtök flugfélaga, að tekjutap flugfélaga næmi svipaðri upphæp.

Canso, alþjóðasamtök flugumferðarstjóra,  áætlar að tekjutap í þeirri atvinnugrein hafi numið 25 milljónum evra á dag, jafnvirði 4,3 milljarða króna.

Tekjutap vegna þess að milljónir starfsmanna fyrirtækja komust ekki til vinnu sinnar, er áætlað 500 milljónir evra á dag, að mati Royal Bank of Scotland, jafnvirði 85 milljarða króna.  

TUI Travel, sem er stærsta ferðaskrifstofa Evrópu, segir að tekjutap þar á bæ nemi um 20 milljónum punda, jafnvirði 3,9 milljarða króna.  

Vefmyndavélar Mílu

Gosmökkurinn laust fyrir hádegi í gær.
Gosmökkurinn laust fyrir hádegi í gær.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert