Fréttaskýring: Evran krefst meiri samruna Evrópu

Mikils óróa gætir í Grikklandi vegna efnahagsástandsins og vandi Grikkja …
Mikils óróa gætir í Grikklandi vegna efnahagsástandsins og vandi Grikkja þjarmar að evrunni. reuters

Björgunaraðgerðir Evrópusambandsins til handa gríska hagkerfinu hafa vakið margar spurningar um stöðu evrunnar sem gjaldmiðils og hvort taka þurfi upp sameiginlega hagstjórn í evruríkjunum.

Tom Fitzpatrick er í hópi fjármálasérfræðinga sem telja frekari samruna hagkerfanna nauðsynlegan eigi evran að lifa af sem gjaldmiðill en hann fer fyrir tæknilegri greiningu hjá risabankanum Citigroup í höfuðstöðvum hans í New York.

Fitzpatrick gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í bréfi til viðskiptavina bankans sem barst í hendur Bloomberg fréttaveitunnar en þar lýsti hann því yfir að evrusvæðið væri dæmt til að gliðna í sundur nema til kæmi viðleitni Evrópusambandsins í átt til frekari samruna evruríkjanna á stjórnmála- og efnahagssviðinu.

Að mati Fitzpatrick er slíkur samruni nauðsynlegur jafnvel þótt lausn finnist á djúpstæðri skuldakreppu gríska ríkisins sem sýpur nú seyðið af skorti á ráðdeild í ríkisfjármálum með alvarlegum afleiðingum.

„Evrópa þarf að gera upp við sig hvort hún ætlar að vera „Bandaríki Evrópu“ eða „samansaumað bútasaumsteppi“ sjálfstæðra ríkja,“ skrifaði Fitzpatrick og dregur hvergi undan í varnaðarorðum sínum.

Dæmd til að líða undir lok?

„Við óttumst að án undirbúnings af hálfu helstu ríkjanna – einkum og sér í lagi Þýskalands – sé evran sem sameiginlegur og sífellt útbreiddari gjaldmiðill óhjákvæmlega dæmd til að líða undir lok,“ skrifar Fitzpatrick.

Þótt ekki sé um að ræða formlega yfirlýsingu af hálfu bankans hafa skrifin vakið athygli enda á ferð sérfræðingur sem umgengst lykilmenn í einni helstu fjármálastofnun heims.

Hvað snertir ummæli hans um Grikkland má rifja upp að á mánudag kom fram í fréttaskýringu New York Times að fjárfestar hefðu fært sig frá grískum skuldabréfum af ótta við að gríska ríkinu myndi ekki takast að tryggja sér 11 milljarða evra fjármögnun í maí en tekið var fram að gosið í Eyjafjallajökli hefði seinkað mikilvægum fundi fulltrúa stjórnarinnar, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um málið.

Portúgal á bjargbrúninni?

Og vandinn liggur víðar. Þannig sagði í frétt New York Times að fjárfestar væru einnig teknir að ókyrrast vegna stöðunnar í Portúgal þar sem óvissa væri uppi um getu ríkisins til að standa undir sífellt meira íþyngjandi skuldabyrði.

Jafnframt var vikið að útgáfu nýrrar skýrslu Evrópska seðlabankans þar sem lagt er til að eftirlit með fjármálamörkuðum verði eflt með hliðsjón af reynslu síðustu missera.

Athygli vekur að matsfyrirtækin fá á baukinn með þeirri umsögn bankans að þau hafi reynst of svifasein við endurskoðun lánshæfismats.

Wall Street Journal gerði stöðuna í Grikklandi einnig að umtalsefni en á vef þess kom fram að áhættuálagið á grískum ríkisskuldabréfum til tíu ára væri nú 517 punktum hærra en á sambærilegum þýskum ríkisskuldabréfum. Líkti viðmælandi blaðsins lækkun grísku bréfanna í fyrradag við hrun.

Framlag Frakka

Fjárhagsaðstoð nokkurra stærstu hagkerfa Evrópusambandsins til handa Grikkjum færðist nær veruleika í vikunni þegar Christine Lagarde, viðskiptaráðherra Frakklands, greindi frá því á miðvikudag að ríkisstjórnin hefði lýst yfir stuðningi við viðauka fjárlaga sem þingið myndi greiða atkvæði um snemma í næsta mánuði.

Viðaukinn felur í sér allt að 6,3 milljarða evra lán til gríska ríkisins eða rúman fimmtung um 30 milljarða lánapakka sem evruríkin hafa komið sér saman um að bjóða Grikkjum, með því skilyrði að þarlend stjórnvöld fallist á þriggja ára efnahagsáætlun sem kveður á um að fjárlagahallanum verði komið niður í 3% af þjóðarframleiðslu.

Kreppan er djúp og hafa grísk stjórnvöld þegar hækkað skatta og lækkað laun opinberra starfsmanna til að stoppa upp í fjárlagagatið.

George Papaconstantinou fjármálaráðherra Grikklands hlýðir á hinn franska kollega sinn, …
George Papaconstantinou fjármálaráðherra Grikklands hlýðir á hinn franska kollega sinn, Christine Lagarde reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert